Atvinnustefna Reykjavíkur sett fram í fyrsta sinn

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag nýja atvinnustefnu sem sett er fram undir yfirskriftinni Atvinnustefna Reykjavíkur – Skapandi borg. Er þetta í fyrsta sinn sem slík stefna er sett fram af hálfu Reykjavíkurborgar, að því er fram kemur í tilkynningu frá borgaryfirvöldum.

Fram kemur að stefnunni fylgi ítarleg aðgerðaáætlun þar sem ábyrgð á hverju verkefni sé skilgreind.

Atvinnustefna Reykjavíkur - Skapandi borg skiptist í fimm hluta, sem eru eftirfarandi: Leiðarljós og lykilmarkmið, aðgerðaáætlun á níu meginsviðum, skilgreining, sérhæfing og skipulag atvinnusvæða, aðgerðir í málefnum atvinnulausra, virkni og vinnumarkaðsaðgerðir og fjárfestingastefna Reykjavíkurborgar. Að auki fylgir greinargerð með atvinnustefnunni.

„Lykilmarkmið stefnunnar eru að Reykjavíkurborg stuðli að framúrskarandi skilyrðum fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja, með sérstakri áherslu á meðalstór og lítil fyrirtæki. Þá er lögð áhersla á að skapa vaxtarskilyrði fyrir fjölbreytt, umhverfisvænt og skapandi atvinnulíf sem mæti þörfum beggja kynja. Þá er lagt upp með að komið verði á hagkvæmu skipulagi og sérhæfingu atvinnusvæða sem stuðli að myndun klasa í greinum á lykilsvæðum þar sem sóknarfæri eru í atvinnulífi. Sérstök áhersla er lögð á að skapa vel launuð störf sem byggjast á þekkingu, hugviti og grænum atvinnuáherslum.

Gert er ráð fyrir að borgin taki upp samstarf við fjárfesta til að stuðla að fjölbreyttum húsnæðismarkaði í Reykjavík. Þá verði ástunduð markviss opinber fjárfesting til að auka lífsgæði, menntun, almenningsrými og sjálfbærar samgöngur og tryggja nauðsynlega innviði fyrir framsækið atvinnulíf í borginni,“ segir í tilkynningu.

Nánar á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert