Eru að ganga af heimilislækningum dauðum

Fjölmargar stöður lækna á landsbyggðinni lausar og heilu landshlutarnir án fastra lækna. Nýlega voru sjö stöður sérfræðinga í heimilislækningum auglýstar í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Enginn sótti um. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein Þórarins Ingólfssonar, formanns Félags íslenskra heimilislækna, í nýjasta hefti Læknablaðsins.

„Atburðarásin um og eftir efnahagshrun er hins vegar grafalvarleg. Heilbrigðisyfirvöld virðast í skjóli niðurskurðar vera á góðri leið með að ganga af heimilislækningum dauðum. Haustið 2007 var gerð reglugerðarbreyting sem skyldar heilsugæslustöðvarnar til að skrá fólk „á heilsugæslustöð“ án heimilislæknis þótt listar allra lækna þar séu löngu yfirfullir og læknarnir hafi enga möguleika á að sinna þessu sem skyldi og er þannig grafið undan læknis/-sjúklingssambandinu og þjónustunni sem veitt er. Þannig er vandinn falinn án þess að koma með raunhæfar aðgerðir til að bregðast við heimilislæknaskorti,“ skrifar Þórarinn.

Staðan er viðkvæm

Á vormánuðum 2010 var sagt upp samningi við 12 sjálfstætt starfandi heimilislækna sem sinna tugum þúsunda skjólstæðinga og veita persónulega og góða þjónustu eftir hugmyndafræði heimilislækninga. Boðuð var á sama tíma starfræksla svokallaðrar „forvaktar“ í samstarfi Landspítala og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Tilkynnt var einnig að samningur yrði ekki endurnýjaður við Læknavaktina sem veitir öllum sem þangað leita skjóta þjónustu sérfræðinga í heimilislækningum utan dagvinnutíma, hvort sem þeir hafa skráðan heimilislækni eða ekki.

„Staðan er viðkvæm núna, heimilislæknar eru of fáir og margir yngri heimilislæknar hafa þegar hætt störfum og flust búferlum og þeir sem eldri eru nálgast eftirlaun eða íhuga að draga sig í hlé eða fara í önnur verkefni. Ekki fást hæfir umsækjendur í stöður sem eru auglýstar,“ skrifar Þórarinn.

„Samningar við sérgreinalækna á stofum hafa ekki verið gerðir og fellur kostnaðarauki undanfarinna ára óskiptur á sjúklinga sem þurfa á þjónustu þeirra að halda. Þess eru mörg dæmi að fólk biðst undan tilvísun til sérfræðings vegna kostnaðar. Slíkt er óviðunandi. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að viðurkenna að heilbrigðiskerfi Íslendinga eins og annarra þróaðra þjóða hvílir á þekkingargrunni læknisfræðinnar. Læknar sem fagstétt verðskulda að haft sé samráð við þá um meiriháttar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Tortryggni sú sem hefur verið leiðarljós yfirvalda undanfarinn áratug gagnvart fagfélögum lækna er óverðskulduð og hefur þegar valdið of miklum skaða,“ skrifar Þórarinn í Læknablaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert