Rjúpum fækkar um nær allt land

mbl.is/Sverrir

Rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands vorið 2012 sýna fækkun um nær allt land. Fram kemur í tilkynningu að þetta fækkunarskeið hafi varað í tvö ár á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum og í þrjú ár á Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi.

„Samandregið fyrir öll talningasvæði var meðalfækkun rjúpna 25% á milli áranna 2011 og 2012. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum 2011 til 2012 og veiði 2011. Miðað við fyrri reynslu mun fækkunin halda áfram og rjúpnastofninn verða í lágmarki á árabilinu 2015 til 2018 og næsta hámark yrði 2020 til 2022,“ segir í tilkynningunni.

NÍ segir að niðurstöðurnar komi ekki á óvart en stærð rjúpnastofnsins breytist á kerfisbundinn máta. Stofninn rísi og hnígi og stofnsveiflan taki 10 til 12 ár. Síðasta hámark hafi verið 2009 um vestanvert landið og 2010 um landið austanvert. Rjúpum hafi því verið að fækka á landinu í tvö til þrjú ár og almennt orðið fátt um fugla.

Um 60 manns tóku þátt í talningunum sem hófust 23. apríl og var lokið 31. maí. NÍ segir að samtals hafi 814 karrar sést.

Nánar á vef NÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert