Fínasta veður um helgina

Vonandi geta sem flestir landsmenn slakað á í sólinni um …
Vonandi geta sem flestir landsmenn slakað á í sólinni um helgina. Ómar Óskarsson

Landsmenn allir geta hlakkað til helgarinnar því víða um land er spáð ágætis veðri og að mestu úrkomulausu. Á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi er spáð fínu veðri en búast má við öskufoki með suðurströndinni á morgun.

„Það er spáð ágætis veðri víða um land um helgina og það verður að mestu leyti úrkomulaust á landinu heilt yfir,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.

„Vindurinn er austan- og norðaustanstæður í grunninn og það þýðir að það verður svalara á Norður- og Austurlandi, sérstaklega við sjóinn.“

Einar segir einhverjar líkur vera á síðdegisskúrum á Suðurlandi. „En bara fínt veður í bænum og á Vesturlandi. Hitinn fer í 15-17 stig á daginn þegar best lætur.“

Einar bendir á að búast megi við strekkingsvindi á Suðurlandi á morgun með tilheyrandi öskufoki meðfram ströndinni. „Við bara búum við það núna að þegar það er þurrt snemmsumars þá fýkur þetta fína efni auðveldlega.“

Eftir helgi, mánudag og þriðjudag, er reiknað með áframhaldandi mildu veðri víðsvegar um land og engar stórvægilegar breytingar í nánd.

Veðurspá Veðurstofu Íslands

Veðurstofan spáir á morgun norðaustan- og austanátt, víða 5-13 m/s, en heldur hvassari með SA-ströndinni. Heldur hægari á morgun. Skýjað að mestu og yfirleitt þurrt. Hiti 7 til 15 stig að deginum, hlýjast S- og V-lands.

Á sunnudag er spáð norðaustlægri átt, 3-8 m/s víðast hvar. Skýjað með köflum og stöku skúrir syðra, einkum síðdegis. Hiti 9 til 15 stig V-til en 3 til 9 stig A-til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert