Umferð þungra ökutækja takmörkuð á Þingvöllum

Takmarkanir hafa verið settar á umferð þungra ökutækja um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Umferð vöruflutningabíla sem eru þyngri en 8 tonn er óheimil, en umferð allra hópferðabifreiða og áætlunarbíla verður áfram heimil um þjóðgarðinn. Umferð allra ökutækja með vatnsspillandi farm og hættulegan farm er bönnuð. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Bannið hefur þegar tekið gildi og hafa verið sett upp skilti við leiðir inn í þjóðgarðinn því til staðfestingar. Skiltin eru á Þingvallavegi (36) við Biskupstungnabraut (35), á Lyngdalsheiðarvegi (365) rétt við hringtorgið á Laugarvatni og á Þingvallavegi (36) við Vesturlandsveg (1).

Vegfarendur eru beðnir um að fylgja þessum reglum og bæta þannig umgegni um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert