Buster lætur nefið ráða för

Einn ástsælasti starfsmaður lögreglunnar á Selfossi veit fátt betra en að fá bolta í verðlaun þegar hann kemst á snoðir um fíkniefni. Þetta er springer spanielhundurinn Buster, en nafnið er vísun í starfslýsingu hans. Buster hefur vakið athygli fyrir vaska framgöngu undanfarið enda hefur hann þefað uppi fíkniefni á ótrúlegustu stöðum.

Buster er fjögurra ára gamall og hóf störf fyrir lögregluna árið 2010 en hefur margsannað sig þrátt fyrir stuttan starfsaldur. Hann hampar titlinum Íslandsmeistari fíkniefnaleitarhunda og var valinn þjónustuhundur ársins 2011 af Hundaræktarfélagi Íslands. En auk þess að vera fyrsta flokks lögregluhundur er Buster líka heimilishundur og góður vinur umsjónarmanns síns, Guðjóns Smára Guðjónssonar lögreglumanns, sem hann fylgir í hvert fótmál.

Getur verið kelinn líka

Buster er hámenntaður á sínu sviði en er jafnframt í stöðugri þjálfun og þarf að standast próf á hverju ári til að halda starfsleyfinu. Guðjón Smári segir engan vafa á því að fyrirhöfnin sé þess virði. Buster sé lögreglunni nauðsynlegur og skemmtilegur vinnufélagi að auki.

„Þótt hann sé harður hundur að sjá getur hann verið ósköp kelinn líka. Hann er mjög duglegur og við erum ánægð með hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert