Hrikalega stoltur

Alfreð Gíslason á sigurstundu. Hér sést hann með styttuna sem …
Alfreð Gíslason á sigurstundu. Hér sést hann með styttuna sem fylgir sigri í Meistaradeild Evrópu, sigurlaunin í þýsku bikarkeppninni og loks Þýskalandsmeistarasjöldinn. ljósmynd/Sascha Klann

Alfreð Gíslason náði einstökum árangri í vetur sem þjálfari handboltaliðsins THW Kiel. Liðið vann alla bikara sem það keppti um, varð m.a. Evrópumeistari, þýskur bikarmeistari og Þýskalandsmeistari; án þess að tapa einu einasta stigi.

Leikmenn og þjálfari THW Kiel, Alfreð og Aron Pálmarsson í þeim hópi, skrýddust forláta flugmannabúningum á laugardaginn var; mættu þannig klæddir á ráðhússsvalir borgarinnar þar sem þúsundir manna höfðu safnast saman til þess að hylla hetjurnar. Kiel er handboltabær; THW er helsta íþróttalið borgarinnar og stolt íbúanna.

Talið er að á milli 20 og 30 þúsund manns hafi verið saman komnir í miðbæ Kiel þetta kvöld. Í hátíðahöldunum miðjum renndu meistararnir göllunum niður og við blasti bolur þar sem minnt var á hið einstaka afrek liðsins. Svo var talað, sungið og gert að gamni sínu. Stemningin frábær, eins og skiljanlegt var.

Óhætt er að segja að Alfreð og lærisveinar hans hafi verið í fluggírnum í vetur; félagið er það besta í heimi og vann það einstaka afrek að sigra í hverjum einasta leik í þýsku deildinni. Alfreð er að sjálfsögðu himinlifandi og ritstjóri virtasta handboltatímarits Evrópu efast stórlega, í viðtali við Sunnudagsmoggann, um að það afrek verði nokkurn tíma endurtekið.

„Stórkostlegur árangur“

Alfreð er afdráttarlausari sjálfur þegar spurt er. „Ég veit að þetta gerist aldrei aftur. Ég lagði mikla áherslu á að vinna tvo síðustu leikina – þótt liðið væri búið að vinna alla titlana – til þess að fara í gegnum deildarkeppnina án þess að missa eitt einasta stig. Það er stórkostlegur árangur og ég er alveg hrikalega ánægður.“

Kiel vann alla leikina og skoraði 298 mörkum fleiri en liðið fékk á sig í deildinni. „Þetta var allt annað en í fyrra. Þá lentum við mikið í meiðslum en sluppum nánast alveg í vetur og ég gat þess vegna dreift álaginu á alla strákana. Það skipti mjög miklu máli.“

Alfreð segir engan hafi dreymt um að vinna alla leikina í þýsku deildinni. „Upp úr áramótunum, eftir að við slógum met Lemgo um flesta sigurleiki í röð, var mikið farið að tala í fjölmiðlum um núllið;að við myndum klára veturinn án þess að missa stig, en ég hugleiddi það svo sem ekki af alvöru. Málið snerist að mörgu leyti um Hamborgarleikinn um miðjan maí, en tveir erfiðir útileikir voru á svipuðum tíma, í Lemgo og Göppingen. Eftir að hafa unnið þessa leiki kom þetta nokkurn veginn að sjálfu sér.“

Síðustu daga hefur allt snúist um handbolta í Kiel, og gerir reyndar oft. „Það má segja að undanfarið hafi allt verið vitlaust hér vegna góðs gengis okkar.“

Alltaf er uppselt í íþróttahöllina, Sparkassen-Arena, sem rúmar á ellefta þúsund áhorfendur. „Það er eiginlega ótrúlegt. Það eru á milli þrjú og fjögur þúsund manns á biðlista eftir ársmiða. Gallinn við það er að meðalaldur fólks á heimaleikjunum hækkar alltaf; það er sorglegt frá að segja, en miðar losna ekki fyrr en fólk deyr! Meðalaldurinn er reyndar mun lægri á Meistaradeildarleikjunum. Ársmiðahafar hafa vissan tíma til þess að sækja þá miða og allt að þriðjungur gleymir að gera það í tæka tíð og þá eru þeir seldir öðrum. Það tekur aldrei meira en tvo tíma að selja þær þúsundir miða sem þannig eru í boði. Og þá er ekki selt á einstaka leik heldur alla í Meistaradeildinni þann veturinn.“

Margir bestu íþróttamenn heims eru sagðir miklir egóistar. Alfreð er spurður hvernig í ósköpunum hann náði að halda þeim öllum ánægðum. „Við vinnum bara mjög vel saman og ég dreifi álaginu á alla. Strákarnir vita að enginn þeirra spilar allan tímann og ef einhver slappar af þá spilar sá næsti meira. Það er mjög einfalt.“

Alfreð segir Hamborg ekki með síðra lið en Kiel að mörgu leyti og Rhein-Neckar Löwen, sem Guðmundur Guðmundur þjálfar, sé einnig með mjög góðan mannskap en liðið hafi verið óheppið með meiðsli í vetur. „Svo er Berlín [sem Dagur Sigurðsson stjórnar] með gott lið; þar á bæ þykjast menn reyndar alltaf vera lítið félag, en þegar maður eins og sænski landsliðsmaðurinn Jonathan Stenbäcken er meira og minna uppi í stúku er ekki hægt að halda því fram að breiddin sé ekki mikil.“

Alfreð leggur áherslu á hve mörg góð lið séu í þýsku deildinni. „Ef bestu liðin leika ekki vel á útivelli gegn botnliðinu geta þau alveg tapað.“

Akureyringurinn segir margt hafa breyst síðan hann hætti að leika með Tusem Essen fyrir aldarfjórðungi. „Stemningin er miklu meiri en þegar ég var að spila hérna, nú er leikið í stærri höllum og umgjörðin er öll miklu flottari. Þá var líka bara leyfður einn útlendingur í hverju liðið þannig að standardinn er miklu hærri. Þróunin í handboltanum hefur verið mjög mikil á 25 árum.“

Þegar spurt er um helstu styrkleika Kielar-liðsins, segir Alfreð: „Við erum alltaf á undan hinum liðunum í leikskipulagi. Mínir menn hafa margir verið lengi saman og vita allir hvað þeir eiga að gera. Við höfum spilað tvö mismunandi varnarkerfi mjög vel, 6-0 vörn og 3-2-1, og svo vinnum við mjög oft með góðum leik á síðustu 10 mínútunum.“

Það er auðvitað til merkis um það að leikmenn Alfreðs eru í gríðarlegu góðu líkamlegu ástandi.

„Svo tel ég okkur vera að spila aðeins öðruvísi leikaðferðir en önnur lið í deildinni,“ segir Alfreð en vill ekki fara nánar út í það. „Nei! Það útskýri ég ekki að öðru leyti en því að við eigum betra en aðrir með að spila inn á veikleika andstæðingsins. Leikur okkar er sveigjanlegri en annarra að því leyti.“

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Sunnudagsmogganum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert