Botnar ekki í sjónarmiðum borgarinnar

Björn Jón Bragason, talsmaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.
Björn Jón Bragason, talsmaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. mbl.is

„Okkur líst bara mjög illa á þessa þróun og lokun bílaumferðar í Reykjavík hefur mjög slæm áhrif á verslun við Laugaveg,“ segir Björn Jón Bragason, en hann er talsmaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Samtökin, sem stofnuð voru síðastliðinn fimmtudag, hafa það helst að markmiði að efla verslun við Laugaveginn í Reykjavík og vera málsvari eigenda rótgróinna verslana og eigenda verslunarhúsnæðis við götuna.

Mikill samdráttur varð í verslun við Laugaveg þá daga sem lokað var fyrir bílaumferð, en borgaryfirvöld lokuðu fyrir bílaumferð seinasta sumar. Björn tekur sem dæmi að þegar engin bílaumferð er á Laugaveginum, hrynji verslun um allt að tugi prósenta, en aukist svo um leið og opnað er fyrir umferð, en borgaryfirvöld opnuðu aftur fyrir umferð síðastliðinn ágúst.

Björn segist ekki botna í sjónarmiðum borgaryfirvalda, en þau ganga út á að auka mannlíf í miðborginni og að draga úr því ónæði sem fylgir bílaumferð. Björn telur að þessi sjónarmið eigi betur við um Hljómskálagarðinn og fleiri græn svæði, en telur að aðgengið að verslunum við Laugaveg verði að vera gott.

Aldraðir og öryrkjar eru í vandræðum

„Margir aldraðir og öryrkjar geta ekki gengið langar vegalengdir og í sumum tilvikum þarf að keyra fólk upp að dyrum,“ segir Björn, en lokun bílaumferðar við Laugaveg skapar mikið vandamál fyrir þennan hóp og bætir Björn við að það leiði að sjálfsögðu til þess að búðirnar við Laugaveg missa þessa kúnna.

Ekki hægt að bera saman við útlönd

Björn segir að ekki sé hægt að bera Reykjavík saman við miðborgir á meginlandi Evrópu. „Þessi gangandi umferð sem er víða erlendis, er ekki til staðar hér og þeir sem stunda viðskipti við búðir á Laugaveginum munu hætta því ef aðgengið er slæmt,“ segir Björn og segir að í t.d. Bretlandi hafi menn miklar áhyggjur af minnkandi viðskiptum í miðborgum. Þar hafi menn gripið til þess að auðvelda fólki að komast á bílum sínum í miðborgirnar með því að lækka bílastæðagjöld og niðurfella gjaldskyldu í nágrenni við verslunargötur. 

Eins og fyrr kom fram voru samtökin stofnuð síðastliðinn fimmtudag en í stjórn voru kjörin Bolli Kristinsson, Brynjólfur Björnsson, Gunnar Guðjónsson, Hildur Símonardóttir og Jón Sigurjónsson. Í varastjórn voru kosnir Frank Ú. Michelsen og Hallgrímur F. Sveinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert