Milt veður í kortunum

Ernir Eyjólfsson

Veðurstofa Íslands spáir áframhaldandi mildu veðri víðsvegar um land. Á morgun er spáð hægri breytilegri átt eða hafgolu, víða björtu veðri en sums staðar skýjuðu með ströndinni. Reikna má með stöku síðdegisskúrum sunnantil á landinu. Kaldast verður með norðurströndinni en hlýjast suðvestanlands. Hiti á bilinu 4-16 stig.

„Það er ósköp svipað veðurlag út vikuna. Á Suðurlandi aukast líkur á skúrum aðeins þegar líður á vikuna. Á fimmtudaginn má gera ráð fyrir einhverjum skúrum á Suður- og Suðvesturlandi en annars er nú tíðindalítið,“ segir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Ekki er því búist við miklum breytingum á næstunni. Um helgina var útlit fyrir að suðlægar áttir yrðu ríkjandi norðanlands en ný spá gerir ráð fyrir áframhaldandi norðlægri átt. Verður því áfram fremur svalt þar.

Veðurspá Veðurstofu Íslands

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag er gert ráð fyrir hægri breytilegri átt og víða bjartviðri, en sums staðar skýjuðu með ströndinni. Horfur á síðdegisskúrum sunnanlands. Hiti 5 til 15 stig, svalast með austurströndinni, en hlýjast inn til landsins á vestanverðu landinu.

Um helgina er spáð suðlægri átt, skýjað og þurrt að kalla með suðvestan- og vesturströndinni, en bjart veður annars staðar. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðan- og austanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert