Trúfélögum úthýst úr hafnfirskum skólum

Hafnarfjarðarkirkja.
Hafnarfjarðarkirkja. mbl.is

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti í morgun viðmiðunarreglur um samskipti leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Reglurnar eru nær orðrétt þær sömu og samþykktar voru í Reykjavík í fyrrahaust.

Með samþykktinni er ljóst að trúar- og lífsskoðunarfélög mega ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla bæjarins á skólatíma. „Þetta á við allar heimsóknir í lífsskoðunar- og trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir. Ekki er átt við efni sem tengist fræðslu er stuðlar að menningarlæsi barna,“ segir í reglunum.

Í fljótu bragði virðast reglurnar samhljóma þeim sem samþykktar voru í Reykjavík fyrir utan eitt ákvæði. Í reglum Reykjavíkur segir: „Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.“

Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur ekki þótt ástæða til að setja reglu um þetta atriði, og raunar var þetta tekið úr drögum að reglum sem til umræðu voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert