Lög um kynáttunarvanda samþykkt

Réttindi einstaklinga með kynáttunarvanda voru sett í lög í dag,
Réttindi einstaklinga með kynáttunarvanda voru sett í lög í dag, Árni Sæberg

Alþingi hefur samþykkt frumvarp velferðarráðherra til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Lögin kveða einkum á um úrbætur sem snúa að stjórnsýslu og málsmeðferð, tilhögun kynleiðréttinga og nafnabreytingar í þjóðskrá.

Í lögunum er kveðið á um rétt einstaklings með kynáttunarvanda til heilbrigðisþjónustu og um hlutverk teymis Landspítala um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð.

Eftir að meðferð og reynslutímabili í gagnstæðu kynhlutverki lýkur, samtals 18 mánaða tímabili að lágmarki, og að uppfylltum öðrum skilyrðum, getur viðkomandi sótt um staðfestingu á því að hann tilheyri gagnstæðu kyni.

Samkvæmt lögunum er sótt um til sérfræðinefndar um kynáttunarvanda sem hefur það hlutverk að staðfesta að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni og, ef við á, hvort hann teljist hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar. Eftir að einstaklingur hefur hlotið slíka staðfestingu nýtur hann allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði nefnd til að gera tillögur um úrbætur á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis og í mars síðastliðnum skilaði hún ráðherra drögum að frumvarpinu sem nú er orðið að lögum. Við gerð frumvarpsins var einnig höfð hliðsjón af tillögu til þingsályktunar sem lögð var fram á Alþingi í nóvember 2009 um bætta réttarstöðu þessara einstaklinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert