Strákum duga lægri einkunnir en stelpum til að komast inn í Verzló

Brautskráning úr Verzlunarskóla Íslands. Myndin er úr safni.
Brautskráning úr Verzlunarskóla Íslands. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Strákar þurfa lægri einkunnir en stelpur til að komast inn í Verzlunarskóla Íslands. Þetta segir skólastjóri skólans. Móðir stúlku sem sækir um skólavist þar segir þetta algjörlega úr takti við raunveruleikann. Um 800 ungmenni sækjast eftir skólavist í ár og 335 fá inngöngu í skólann.

„Við tökum inn um 335 nemendur í heildina. Það er erfitt að nefna tiltekna lágmarkseinkunn en við röðum umsækjendum upp og tökum svo efstu 260 inn í skólann. Í þeim hópi eru stelpur í miklum meirihluta,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans.

Hann segir að meðaleinkunn nemenda sé reiknuð út á þann hátt að einkunnir í íslensku og stærðfræði fái tvöfalt vægi og síðan séu einkunnir úr ensku, dönsku, samfélagsfræði og náttúrufræði skoðaðar og tvær þær efstu teknar með í meðaleinkunnina. Þeir 260 nemendur, sem eru með hæstu meðaleinkunnina samkvæmt þessum forsendum fá skólavist í Verzló. Í þessum hópi eru stelpur um 70%.

„Síðan skoðum við miklu breiðari hóp og skoðum þá ýmsa aðra þætti, meðal annars með það í huga að jafna kynjahlutföllin. Við skoðum líka einkunnir í öðrum fögum og ýmsar umsagnir og meðmæli sem oft fylgja nemendum,“ segir Ingi.

Samkvæmt þessu, að jafna kynjahlutföllin, hljóta strákarnir sem komast inn í Verzló að vera með lægri meðaleinkunn en stelpurnar. „Já, ég hugsa að það verði niðurstaðan.“

Er það sanngjarnt? „Það er spurning hvað sé sanngjarnt í þessum efnum. Þegar einkunnir frá einstökum grunnskólum eru mjög mismunandi og þrálátur orðrómur um að skólar séu að blása upp einkunnir hjá sínum nemendum til þess að þeir komist inn í hvaða skóla sem er, þá getur maður spurt sig: Hvað er sanngjarnt og eðlilegt í þessu?“ segir Ingi. Hann segir að ef taka ætti inn nemendur á sem sanngjarnastan hátt, þá væru samræmd próf besti mælikvarðinn. „En við getum auðvitað ekkert annað en treyst því sem kemur frá grunnskólunum.“

Úr takti við raunveruleikann

Móðir stúlku, sem var að ljúka 10.bekk og sótti um í Verzlunarskólanum, segir þetta fyrirkomulag ósanngjarnt og algerlega úr takti við raunveruleikann. „Mér finnst þetta mjög óréttlátt, því þetta má ekki í neinu öðru í lífinu.“ Hún segist hafa komist að því fyrir tilviljun að meiri kröfur væru gerðar til þeirra stúlkna en drengja sem sækja um skólavist í skólanum. „Þetta er bara ekki rétt.“

Að sögn Inga tekst ekki að jafna kynjahlutföllin á þennan hátt, því að undanfarin ár hafa stelpur verið 60% nýnema í skólanum. „Við göngum ekki það langt að fara 50/50. En við viljum ekki hafa kynjahlutföllin ójafnari en 60/40, ef hægt er.“

Ekki munur á námsárangri 

Heldur þessi munur á einkunnum áfram í gegnum námið í skólanum? „Nei, við sjáum ekki merkjanlegan mun á námsárangri hjá stelpum og strákum eftir að þau eru komin í skólann og getum ekki séð að stelpurnar standi sig betur.“

Svarbréf til nemenda verða send út 25. júní samkvæmt reglum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þessi dagsetning gildir um umsækjendur um skólavist í öllum framhaldsskólum landsins. 

Strákar þurfa lægri einkunnir en stelpur til að komast inn …
Strákar þurfa lægri einkunnir en stelpur til að komast inn í Verzlunarskóla Íslands. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert