„Þetta verður að stöðva“

Hörð átök geisa í Sýrlandi.
Hörð átök geisa í Sýrlandi. AFP

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur Alþingi til að beita sér vegna ástandsins í Sýrlandi. Í umræðum um störf þingsins ræddi hún sérstaklega þær fréttir sem hafa borist um ofbeldisverk gagnvart börnum og að verið sé að nota þau sem mannlega skildi í átökunum. „Þetta verður að stöðva.“

„Nýlega hafa þær ömurlegu, ógeðfelldu og ógeðslegu fréttir borist frá Sýrlandi, að verið sé að murka lífið úr og nota börn sem mannlega skildi í þeim átökum sem eiga sér stað í því samfélagi.“

Ragnheiður segir ennfremur að að alþjóðasamfélagið hafi ekki setið aðgerðarlaust en það hafi aftur á móti ekki komist að samkomulagi um það hvernig eigi að bregðast við stöðunni í Sýrlandi.

„Ég vil hvetja okkur hér, og þá tala til alþjóðasamfélagsins sem heildar, að þessu beri að linna. Þetta verður að stöðva,“ sagði hún og bætti við að þingmenn eigi ekki að sitja aðgerðarlausir.

Þá segir hún að því beri að fagna að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi fordæmt ofbeldisverkin á alþjóðavettvangi.

„En nú vonast ég til þess að við getum með einhverjum ráðum notað þær stofnanir, hvort sem það eru Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið eða önnur tæki sem við höfum á alþjóðavettvangi til þess að ráða bug á þessu ástandi, vegna þess að þetta getur ekki gengið svona áfram,“ sagði Ragnheiður.

Fleiri þingmenn kvöddu sér hljóðs á Alþingi í dag til að taka undir orð Ragnheiðar.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert