Engin ákvörðun um þinghlé

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir Friðrik Tryggvason

„Það er ekkert að frétta. Þetta er við það sama, stál í stál,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um viðræður formanna flokkanna í kvöld um framhaldið í störfum þingsins. Engin ákvörðun hefur verið tekin um þinghlé.

Fyrr um daginn funduðu formenn þingflokkanna tvisvar um framhaldið og voru engar ákvarðanir teknar á þeim fundum, að sögn Ragnheiðar Elínar.

Fram hefur komið að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sé því eindregið fylgjandi að hlé verði gert á þingstörfum fyrir helgina.

Stjórnarmeirihlutinn á eftir að afgreiða mörg stórmál og nægir þar að nefna kvótamálin og rammaáætlun.

Rætt hefur verið um að þingið kynni að koma saman aftur eftir forsetakosningarnar 30. júní en ef það kæmi saman á ný mánudaginn 2. júlí þyrfi þingstörfum að ljúka innan þriggja vikna. Ástæðan er sú að viku til tíu daga tekur að undirbúa þingsalinn fyrir innsetningu nýkjörins forseta, líkt og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert