Meiri mengun en talið var

Brennisteinsvetni kemur upp úr borholum sem virkjaðar eru.
Brennisteinsvetni kemur upp úr borholum sem virkjaðar eru. mbl.is/Golli

Á síðasta ári fór styrkur brennisteinsvetnis þrisvar sinnum yfir mörk sem reglugerð heimilar í byggð. Verulegar líkur eru á að það gerist oftar því að harðari reglugerð tekur gildi árið 2014. Orkuveitan ætlar að fara fram á að gildistöku reglugerðarinnar verði frestað meðan unnið er að úrbótum.

Þetta kom fram í máli Hólmfríðar Sigurðardóttur, umhverfisstjóra OR, á ársfundi Orkuveitunnar.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Hellisheiði undanfarinn áratug. Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun 2006, stækkuð 2008 og aftur 2011. Útblástur jarðhitalofttegunda þ.á.m. brennisteinsvetnis hefur því aukist. Opinber viðmiðunarmörk fyrir brennisteinsvetni voru sett í reglugerð árið 2010 en strangari reglugerð á að taka gildi 1. júlí 2014.

Hólmfríður segir að útblástur brennisteinsvetnis sé einn af mikilvægustu umhverfisþáttum í rekstri jarðvarmavirkjana. Magn brennisteinsvetnis er mælt við virkjanirnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum, í Hveragerði og Norðlingaholti í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlit á höfuðborgarsvæðinu reka síritandi mæla m.a. á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og við Grensás í Reykjavík og gögn frá þessum mælum eru aðgengileg almenningi.

Styrkur brennisteinsvetnis fór þrisvar yfir mörk reglugerðar í byggð á síðasta ári. Hólmfríður segir að verulegar líkur séu á að það gerist oftar við hertar reglur árið 2014.

Þynningarsvæði jarðgufuvirkjana hefur ekki verið skilgreint, en miðað við núverandi virkjanir, verður þynningarsvæðið víðáttumeira en þekkist í kringum aðra atvinnustarfsemi og mun stærra en t.d. kringum álverin í Straumsvík og Grundartanga. Skilgreining á þynningarsvæði þýðir að föst búseta er ekki leyfð innan svæðisins. Kvaðir á landnotkun verða takmarkandi fyrir skipulag þeirra sveitarfélaga sem þynningarsvæðið nær til.

Rannsaka áhrif mengunar á starfsmenn

Hólmfríður segir að Orkuveitan sé að skoða ýmsar leiðir til að draga úr brennisteinsmengun frá Hellisheiðarvirkjun. Hún nefndi hefðbundnar aðferðir úr iðnaði, en þær leiða til þess að úr verður brennisteinn í föstu formi eða brennisteinssýra, alls um 20 þúsund tonn. Það kosti fyrirhöfn og fjármuni að losna við þetta magn en helsta leiðin sé að grafa brennistein. Hún segir þessa leið því ekki eftirsóknarverða, m.a. ef horft sé til umhverfisáhrifa.

Hólmfríður segir áhugaverðara að fara þá leið sem SulFix nýsköpunarverkefnið við Hellisheiðarvirkjun gengur út á en það er að brennisteinsvetni sé leyst upp í vatni og dælt niður í berglög en þess er vænst að það bindist þar varanlega á föstu formi. Langtímaáhrif niðurdælingar séu hins vegar óþekkt. Hún segir að það kunni að taka sex ár að þróa þessa lausn.

Hólmfríður segir einnig hugsanlegt að koma útblæstri upp fyrir hitahvörf um útblástursháf, en sjónræn áhrif slíkrar leiðar séu veruleg.

Hólmfríður segir að rannsókn gefi vísbendingu um að brennisteinsvetni og aðrir loftmengunarþættir vinni saman að því að hafa áhrif á öndunarfærasjúkdóma. Orkuveitan hefur ákveðið að styðja faraldsfræðilega rannsókn á vegum Háskóla Íslands þar sem metin eru áhrif loftmengunar á heilsufar íbúa á Reykjavíkursvæðinu. Einnig ætlar OR að gera rannsóknir á heilsufari starfsmanna hjá virkjunum OR á Hellisheiði og Nesjavöllum.

Tæring í möstrum vegna mengunar

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, staðfesti á fundinum, að vart hefði orðið við tæringu í möstrum á Hellisheiði og að brúnleit skán sé á gömlum rafmagnslínum á svæðinu. Hann segir að þetta svæði sé jarðhitasvæði og ekki hægt að segja hversu stór hluti tæringarinnar sé til kominn vegna virkjana Orkuveitunnar, en hún eigi örugglega sinn þátt í þessu.

Bjarni sagði að reglugerð um brennisteinsvetni væri strangari hér á landi en erlendis. Orkuveitan væri ekki að reyna að koma sér undan því að fara eftir reglugerðinni með því að óska eftir lengri tíma til að uppfylla hana. Það væri venja þegar svona reglugerðir væru settar að taka mið af þeirri starfsemi sem væri til staðar. „Vandinn er meir en við bjuggumst við,“ sagði Bjarni og bætti við að Orkuveitan þyrfti lengri tíma. Fyrirtækið myndi hins vegar ekki sitja auðum höndum heldur vinna að lausn þannig að það uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru.

Vildi helst ekki reisa fleiri virkjanir

Á fundinum var spurt út í áform Orkuveitunnar að reisa Hverahlíðarvirkjun og hvort ekki væri rétt á að fresta því í ljósi fjárhagsstöðu fyrirtækisins og eins að skynsamlegt væri að geyma orkuna.

Bjarni sagði að hann hefði ekki áhuga á að byggja fleiri virkjanir, bæði vegna fjárhagsstöðunnar og eins vegna þess að það samræmdist ekki stefnu OR að byggja virkjanir til að selja raforku til einkaaðila. Það ætti að vera verkefni annarra en OR að gera það. Það hefðu hins vegar verið gerðir samningar árið 2007 og 2008 um byggingu Hverahlíðarvirkjunar og Orkuveitan yrði að standa við gerða samninga.

Rætt er um að lífeyrissjóðirnir fjármagni byggingu Hverahlíðarvirkjunar, en Norðurál hefur samið um að kaupa raforku frá virkjuninni.

Rannsaka á áhrif brennisteinsvetnis á starfsmenn OR sem starfa við …
Rannsaka á áhrif brennisteinsvetnis á starfsmenn OR sem starfa við Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun var stækkuð árið 2011.
Hellisheiðarvirkjun var stækkuð árið 2011. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert