Íslendingur flytur í sendiráð Bandaríkjanna

Brenna var að flytja í Bandaríska sendiráðið. Myndin er tekin …
Brenna var að flytja í Bandaríska sendiráðið. Myndin er tekin af heimasíðu sendiráðsins.

Fyrir tveimur vikum síðan flutti íslenskur hundur inn í bandaríska sendiráðið hér á landi. Á vef sendiráðsins segir að einungis hafi verið um tímaspursmál að ræða hvenær íslensk menning næði fótfestu innan veggja sendiráðsins.

Um er að ræða Brennu, sem er íslenskur fjárhundur, og flutti hún inn í sendiráðið fyrir skömmu. Sendiráðsstarfsmenn líta gjarnan á sig sem eina stóra fjölskyldu og var henni því tekið fagnandi.

Luis E. Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segist hafa hitt mömmu Brennu um jólin. Heillaðist hann mjög af kyninu og varð því íslensk hundategund fyrir valinu.

„Hún er lífleg, fjörug, vinaleg og smá óþekk. Við höfum nóg að gera núna,“ ritar sendiherrann á síðu sendiráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert