Nauðgunarkæran felld niður

Egill Einarsson.
Egill Einarsson. Morgunblaðið/Kristinn

Kæra á hendur Agli Einarssyni hefur verið felld niður af ríkissaksóknara en liðnir eru um sjö mánuðir frá því hann var kærður fyrir nauðgun. Brynjar Níelsson, verjandi Egils, fagnar mjög niðurstöðunni og segir hana ekki koma á óvart.

„Auðvitað áttum við von á þessu því hann lítur svo á að þessi kæra sé fullkomlega tilefnislaus og vildi gjarnan fá skýringu á því hvernig þetta gat allt saman komið til,“ segir Brynjar Níelsson í samtali við mbl.is.

Brynjar segir það ljóst að þetta mál hefur skaðað ímynd Egils mjög og útilokar ekki frekari aðgerðir af þeirra hálfu.

„Hann er náttúrlega mjög ósáttur við þetta; kæruna, málsmeðferðina hjá lögreglu og ríkissaksóknara. Þetta hefur skaðað hann afskaplega mikið.“

Brynjar bendir einnig á að þegar litið er til kærunnar og þeirra gagna sem tilheyrðu málinu sé undarlegt hve langan tíma það hefur tekið að fá þessa niðurstöðu, en hátt í sjö mánuðir eru liðnir frá upphafi málsins.

Ekki er fyllilega ljóst hver næstu skref verða. Hugsanlegt er að Egill vilji láta rannsaka hvernig þetta kom allt saman til. „Mér finnst ekkert út í bláinn að hann vilji vita meira um það, því þetta hefur skaðað hann gífurlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert