Tom og Katie á göngu um miðbæ Reykjavíkur

Leikarahjónin Tom Cruise og Katie Holmes voru á göngu um miðborg Reykjavíkur rétt fyrir hádegið í dag. Parið rölti um Laugaveginn, Skólavörðustíg og Þingholtsstræti, kíkti í búðir, skoðaði í búðarglugga og naut íslenskrar veðurblíðu. Þau stigu svo upp í bíl í Bankastrætinu og var ekið á brott.

Dóttir þeirra, Suri, var ekki með í gönguferðinni en hún er þó með foreldrum sínum hér á landi. Tilgangur ferðar þeirra er tökur á kvikmyndinni Oblivion en myndin verður tekin upp við Mývatn og á hálendinu við Veiðivötn. Á báðum þessum stöðum hefur verið komið upp vinnubúðum og leikmyndum.

Tökurnar hefjast samkvæmt heimildum mbl.is í Mývatnssveit nú eftir helgi en síðar í mánuðinum verður kvikmyndað við Drekavatn á Jökulheimaleið. Áætlað er að tökum ljúki í byrjun júlí.

Fjölskyldan kom með einkaþotu til Reykjavíkur í gærmorgun og fór svo rakleiðis á Hilton hótel Nordica við Suðurlandsbrautina.

Um 200 manna teymi frá Universal-kvikmyndaverinu verður hér á landi vegna myndarinnar næstu daga.

Tom Cruise verður fimmtugur 3. júlí og fram hefur komið í erlendum fjölmiðlum að hann muni eyða afmælisdeginum á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert