Fréttaskýring: Ætla að afnema vask af rafbílum

Renault Kangoo rafbíll.
Renault Kangoo rafbíll.

Verði frumvarp sem afnemur virðisaukaskatt af innfluttum rafbílum samþykkt mun það hafa afar jákvæð áhrif á sölu rafbíla hér á landi. Innflytjendur eru að undirbúa sig undir að flytja rafbíla inn til landsins, en þeir eru hins vegar mun dýrari en bensínbílar.

Gísli Gíslason, stjórnarformaður fyrirtækisins Northern Lights Energy, sem hefur í nokkur ár unnið að rafbílavæðingu á Íslandi, segir að rætt hafi verið um það sl. þrjú ár, að afnema virðisaukaskatt af rafbílum. Við þær aðstæður fari fólk almennt ekki að kaupa rafbíla. Hann segir að bæði stjórn og stjórnarandstaða hafi lýst stuðningi við frumvarpið og hann hafi fengið fyrirheit um að þetta mál verði klárað fyrir þinglok, annaðhvort núna í vor eða á sumarþingi.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að virðisaukaskattur af innfluttum vetnisbílum verði afnuminn. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að aðeins 11 rafbílar og 21 vetnisbíll séu skráðir í umferð hér á landi en ætla má að hlutdeild bifreiða sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en eingöngu bensíni eða dísilolíu sé um 0,16% af bifreiðaflotanum í landinu.

Enginn virðisaukaskattur er rafbílum í Noregi og þar hefur sala slíkra bíla aukist mikið. Um 1.000 rafbílar voru seldir í Noregi það sem af er þessu ári.

500 þúsund rafbílar framleiddir í ár

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að sala á rafbílum erlendis hafi hafist af einhverjum krafti á síðasta ári. Salan hafi hins vegar ekki verið eins mikil og framleiðendur vonuðust eftir. Hann segir hins vegar að bílaframleiðendur séu búnir að fjárfesta það mikið á þessu sviði, að þróunin verði ekki stöðvuð.

Á þessu ári verða framleiddir um 150 þúsund rafbílar í heiminum, en það er bara brot af allri bílaframleiðslu í heiminum. Gísli segir að stefnt sé að því að framleiða 500 þúsund rafbíla á næsta ári.

Það sem heldur aftur af sölu rafbíla í heiminum er að þeir eru miklu dýrari en venjulegir bílar. Rafbílar eru um tvöfalt dýrari en venjulegir bílar. Ástæðan er sú að rafhlaðan kostar eins og nýr bíll. Gísli segir að með fjöldaframleiðslu lækki verðið. Verðmunurinn eigi því eftir að minnka. Hann segir að þó verðið sé hærra sé fullt af fólki sem setji það ekki fyrir sig. Margir hafi pantað rafbíla í gegnum Northern Lights Energy og þeir komi til landsins næsta vetur þegar búið sé að afgreiða frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi.

Renault leigir kaupendum rafhlöðuna

B&L er eitt þeirra fyrirtækja sem stefna að því að hefja sölu á rafbílum næsta vetur og ætlar að bjóða bíla bæði frá Renault og Nissan. Bjarni Þór Sigurðsson, sölustjóri Renault-bíla, segir að það gerist ekki eins og hendi sé veifað að hefja innflutning á rafbílum og ýmislegt þurfi að ganga upp áður en innflutningur hefjist.

Renault hóf að selja rafbíla í nokkrum löndum í nóvember í fyrra. Bjarni segir að Renault leggi áherslu á að áður en sala hefst til nýrra landa sé til staðar þekking á því hvernig eigi að sinna viðhaldi á bílunum því fyrirtækið hafi ekki áhuga á að selja nokkra bíla og síðan ekki söguna meir. Tæknimenn B&L hafa farið á námskeið hjá Renault til að afla sér þekkingar á bílunum og hvernig eigi að sinna viðhaldi þeirra.

Bjarni segist ekki geta fullyrt hvenær B&L hefji sölu á rafbílum en segist vonast eftir að það verði í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Hann treystir sér heldur ekki til að segja fyrir um verð þeirra. Renault hefur hins vegar tekið þá stefnu að selja bílana og leigja kaupendum þeirra rafhlöðuna. Rafhlaðan kostar álíka mikið og nýr bíll. Bjarni segir að þetta þýði að bílarnir verði á viðráðanlegu verði og eins þurfi eigendur þeirra ekki að hafa áhyggjur af endingu rafhlöðunnar. Ef hún skilar ekki því sem til er ætlast útvegi fyrirtækið nýja rafhlöðu.

Bjarni segir að rafbílar muni ekki leysa bensínbíla af hólmi í fyrirsjáanlegri framtíð. Hleðslan á Renault Kangoo endist í 160 km, en þegar menn þurfi bæði að nota miðstöð og ljós sé hins vegar líklegra að endingin sé 100 km. Menn fari því ekki á rafbíl milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hann segir að aðrar tegundir rafbíla komist um 200 km á hleðslunni. Hámarkshraði rafbíla sé hins vegar um 160 km/klst.

Bjarni segir að rafbílar henti því best í innanbæjarakstur. Þeir séu mjög góður kostur sem annar bíll á heimili og eins sem fyrirtækjabíll. Hann segir að framleiðendur telji að það henti ekki að framleiða stóra og þunga bíla sem knúnir séu með rafmagni.

Bjarni segist verða var við talsverðan áhuga hjá almenningi á rafbílum og hann segist hafa trú á að það sé markaður fyrir slíka bíla hér á landi.

Væntanlegir rafbílar á Íslandi

Mitsubishi i MiEV rafbíllinn.
Mitsubishi i MiEV rafbíllinn. mbl.is/Árni Sæberg
Rafbíllinn Nissan Leaf.
Rafbíllinn Nissan Leaf.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert