„Ófyrirleitni sjálfstæðismanna“

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir Eggert Jóhannesson

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, gagnrýnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins harðlega fyrir að leggja stein í götu þess að frumvarp um náttúruvernd yrði tekið á dagskrá. Með frumvarpinu yrði skref tekið í baráttunni gegn utanvegaakstri. Sjálfstæðismenn hafi sýnt „ófyrirleitni“ í málinu.

„Ég vil líkt og aðrir hér gera athugsemd við að þetta mál skuli ekki hafa verið sett hér á dagskrá. Ég vil líka gera athugasemdir við ófyrirleitni sjálfstæðismanna í þessu máli. Á fjölmörgum fundum sem við fjölluðum um þetta mál voru lengi vel engar athugasemdir og það var í raun veru aðeins verið að þumbast í málinu.

Síðan hafa skilyrðin verið að koma fram á lokasprettinum og þá er farið að út í það að teygja sig eins langt og hægt er til móts við þau skilyrði til þess að hægt sé að afgreiða þetta mál. Á sama tíma eru að birtast í fjölmiðlum hér vikulega hryllilegar myndir af skemmdum eftir utanvegaakstur og ferðasumarið framundan. Þetta frumvarp hafði meðal annars það markmið að setja skýrari og skarpari lagaramma um það. Nei. Þá er hætt við. Og síðan kemst málið ekki á dagskrá hér. Þetta er auðvitað ekki nógu gott,“ sagði Ólína.

Flokksbróðir hennar, Mörður Árnason, var einnig harðorður í garð Sjálfstæðisflokksins.

„Utanvegaakstur á árinu 2012 er í boði Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Mörður í ræðustól Alþingis á tólfta tímanum í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert