Anna Kristín fær hálfa milljón

Anna Kristín Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir, lögmaður hennar, og Einar Karl …
Anna Kristín Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir, lögmaður hennar, og Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður þegar aðalmeðferð í málinu fór fram. Morgunblaðið/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Önnu Kristínu Ólafsdóttur hálfa milljón króna í miskabætur vegna brots forsætisráðuneytis á jafnréttislögum. Anna Kristín gerði kröfu um rúmar sextán milljónir króna í skaðabætur. 

Anna Kristín sem er stjórnsýslufræðingur sótti um starf skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu á árinu 2010. Alls sóttu 41 einstaklingur um starfið og var 21 umsækjandi tekinn í starfsviðtal. Fimm þeirra voru boðaðir í síðara viðtal, þar á meðal Anna Kristín.

Hinn 1. júní 2010 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Arnar Þór Másson í starfið til fimm ára. Anna Kristín sætti sig ekki við þessa niðurstöðu, fór fram á rökstuðning og síðan eftir öllum gögnum málsins. Þá kærði hún niðurstöðuna til kærunefndar jafnréttismála og lá niðurstaða hennar fyrir 22. mars 2011.

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að ráða hefði átt Önnu þar sem hún hefði verið jafnhæf hið minnsta og að ekki hefði verið sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu ráðið því að Arnar var ráðinn. Með því að ráða hann hefði forsætisráðuneytið brotið lög um jafna stöðu kvenna og karla.

Dómur í málinu hefur enn ekki verið birtur og því ekki ljóst á hverju dómur héraðsdóms byggist en af dómsorði má dæma að ekki hafi verið fallist á skaðabótakröfu Önnur Kristínar en aðeins miskabótakröfu hennar sem hljóðaði einmitt upp á hálfa milljón króna.

Upphæðin er sú sama og ríkislögmaður bauð Önnu Kristínu með sáttatilboði. Þórunn Guðmundsdóttir, lögmaður Önnu, fór einmitt yfir það boð við aðalmeðferðina. „Forsætisráðherra taldi að það kostaði í mesta lagi fimm hundruð þúsund krónur að brjóta jafnréttislög,“ sagði Þórunn en Anna Kristín hafnaði sáttaboðinu.

Auk miskabóta var íslenska ríkið dæmt til að greiða Önnu Kristínu rúma milljón í málskostnað.

Frásögn af aðalmeðferð í málinu

Frétt um álitamál í málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert