Rætt um grænt hagkerfi í Ríó

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra leiðir sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um um sjálfbæra þróun, RÍÓ+20, stendur dagana 20. – 22. júní í Ríó de Janeiró í Brasilíu.

Meginefni ráðstefnunnar er annars vegar grænt hagkerfi, sjálfbær þróun og aðgerðir gegn fátækt en hins vegar skipulag og umgjörð stofnana SÞ sem fjalla um sjálfbæra þróun.

Undirbúningur ráðstefnunnar hefur staðið undanfarin tvö ár , en í byrjun þessa árs hófust óformlegar samningaviðræður um gerð niðurstöðuskjals ráðstefnunnar sem ber yfirskriftina „THE FUTURE WE WANT“.

Í fréttatilkynningu segir að Ísland hafi tekið virkan þátt í viðræðunum. Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar voru fjögur mál sett í forgang: endurnýjanleg orka, málefni hafsins, jafnréttismál og landgræðsla/landnýting. Í aðdraganda ráðstefnunnar, sem nú er hafin,  vann samráðshópur ráðuneyta að undirbúningi þátttöku Íslands. Haldnir voru þrír fundir með frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum og efnt til opinna funda. Þá styrkir Ísland útgáfu bókar á vegum SÞ „Future Perfect“ með fjárframlagi og leggur auk þess til tvær greinar, aðra um málefni hafsins og hina um orku.
Á ráðstefnunni í Ríó býðst aðildarlöndum að gangast undir valfrjálsar skuldbindingar. Í því sambandi er ætlunin að vekja athygli á skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi og þingsályktunartillögu um sama efni.

Samkvæmt fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var fyrir einum mánuði, er ætlunin að leggja einn milljarð króna í grænan fjárfestingarsjóð þegar á næsta ári. Opinber stuðningur við „grænkun fyrirtækja“ næstu þrjú árin nemur 1,5 milljarði króna samkvæmt áætluninni. Loks er ráðgert að verja um 1,3 milljörðum króna samtals næstu þrjú árin til grænna fjárfestinga, vistvænna innkaupa og orkuskipta íslenska skipaflotans.
Ætlunin er að fjármagna þennan hluta fjárfestingaráætlunarinnar með arði af eignarhluta ríkisins í bönkunum og eignasölu næstu þrjú árin.

Sjálfbærni og nýjar skilgreiningar á vexti

Ein mikilvægasta tillagan sem tekin er fyrir á ráðstefnunni snýr að markmiðum um sjálfbærni (Sustainable Development Goals). Öll ríki heims eiga að geta stuðst við markmiðin á leið til sjálfbærrar þróunar. Ísland er í hópi ríkja sem vilja að tekið verði tillit til þúsaldarmarkmiðanna svonefndu við þessa stefnumótun. Nefna má að Ísland er fylgjandi skyldum tillögum um að notast verði við annan mælikvarða í framtíðinni en landsframleiðslu til að mæla auð ríkja.

Kaflinn um málefni hafsins hefur reynst einna þyngstur í samningaviðræðunum, en Ísland hefur lagt áherslu á að sporna gegn mengun hafanna, tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og að vinna gegn súrnun hafsins.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra leiðir sendinefnd Íslands á ráðstefnunni. Auk hennar sækja fundinn fyrir Íslands hönd aðstoðarmaður umhverfisráðherra, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ í New York, tveir starfsmenn úr utanríkisráðuneytinu, einn starfsmaður úr umhverfisráðuneytinu og einn úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þá verða einnig í sendinefndinni fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Íslands, þrír fulltrúar frá Háskóla Íslands og ræðismaður Íslands í Ríó de Janeiró.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert