Sami hópur ítrekað staðinn að verki

mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er alltaf sami hópur fimm manna sem hefur verið að reyna að smygla sér um borð í skip til Ameríku undanfarin tvö ár,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips. Lögreglu bárust tilkynningar í nótt og í morgun um erlenda menn sem gerðu tilraunir til að komast um borð í skip félagsins.

Rétt fyrir klukkan 3 var tilkynnt um þrjá menn á lokuðu athafnasvæði við Sundahöfn. Þeir reyndu að komast um borð í skip sem þar lá við festar en starfsmönnum Eimskips tókst að koma í veg fyrir það. Lögreglan hafði hendur í hári þeirra og sá þá að þeir voru aðeins með sjónauka, iPod og hálfan kexpakka í fórum sínum. Laust eftir klukkan tíu í morgun var síðan tilkynnt um tvo menn á svæðinu og reyndust þar vera á ferð félagar hinna þriggja.

„Þessi hópur reynir stöðugt að komast um borð í skip til Ameríku. Það heyrir nánast til undantekninga ef mennirnir reyna ekki á meðan Ameríkuskipin eru í höfn,“ segir Ólafur. Misjafnt sé hvort mennirnir reyni allir í einu að smygla sér um borð eða hvort þeir séu tveir til þrír saman. Um sé að ræða hælisleitendur sem búi á gistiheimili í Reykjanesbæ.

Skipin eru u.þ.b. tvær vikur að sigla vestur um haf og því ljóst að hálfur kexpakki hefði dugað þremur fullvöxnum karlmönnum skammt. „Það er ótrúlegt hvað þeir hafa verið að reyna að fara með. Á einum sem reyndi að smygla sér um borð fyrir tveimur árum fannst aðeins brennivín og kóraninn,“ segir Ólafur. „Þeir reyna líka á veturna og tækist þeim að komast um borð myndu þeir líklega frjósa í hel.“

Ólafur segir þessar sífelldu smygltilraunir mannanna vera mikið vandamál. „Kostnaður Eimskipafélagsins við þetta er að verða gífurlegur. Við höfum þurft að setja upp margar myndavélar og efla öryggisgæslu. Þrátt fyrir að við eigum í góðu samstarfi við lögregluna, tollayfirvöld og Útlendingaeftirlitið þá hefur þetta margfaldast síðan við gengum í Schengen-samstarfið. Ef við værum ekki í því mætti vísa mönnunum úr landi en núna þarf íslenska ríkið að hýsa þá þangað til búið er að vinna úr þeirra málum,“ segir Ólafur og bætir við að lokum að miklu strangara eftirlit þyrfti að vera með flóttamönnum hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert