Biskupsvígslan hafin

Vígsla sr. Agnesar M. Sigurðardóttir til biskups Íslands er nú hafin í Hallgrímskirkju en hún hófst klukkan tvö. Sr. Agnes verður fyrsta konan sem vígð hefur verið til biskups yfir landinu og 57. biskup í röðinni talið frá Ísleifi Gissurarsyni sem vígður var til biskups í Skálholti árið 1056.

Fjölmenni er komið í kirkjuna og þar á meðal núverandi og fyrrverandi forseti Íslands. Einnig er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, viðstödd og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. Þá eru ennfremur fulltrúar erlendra kirkjudeilda, bæði frá hinum Norðurlöndunum og Bretlandseyjum, viðstaddir. Ellefu erlendir biskupar verða þannig viðstaddir athöfnina.

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag fóru íslenskir biskupar lengst af úr landi til þess að hljóta vígslu allt þar til Þórhallur Bjarnason var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1908. Síðan hafa biskupar Íslands verið vígðir þar þar til Karl Sigurbjörnsson var vígður í Hallgrímskirkju árið 1998.

Fram kemur á heimasíðu Þjóðkirkjunnar að þrír kórar syngi við athöfnina, Mótettukór Hallgrímskirkju, Dómkórinn og kirkjukór Bolungarvíkur en sr. Agnes var áður sóknarprestur Bolvíkinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert