Ísland fær lokaviðvörun frá ESA

Höfuðstöðvar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.
Höfuðstöðvar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gefið Íslandi lokaviðvörun vegna innleiðingar tilskipunar um gerðarviðurkenningu vélknúinna ökutækja með tilliti til endurnotanleika, endurvinnanleika og endurnýtanleika þeirra í því skyni að laga hana að tækniframförum.

Fyrir helgi barst íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit ESA vegna tilskipunarinnar sem innleiða átti fyrir 1. nóvember 2011, en það hefur enn ekki verið gert.

Í tilkynningu frá ESA segir að ef Ísland verði ekki við tilskipuninni innan tveggja mánaða geti ESA skotið málinu til EFTA-dómstólsins.

ESA hefur eftirlit með því að EES ríki EFTA, þ.e. Ísland, Liechtenstein og Noregur, virði skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og að aðgerðir aðildarríkjanna á sviði samkeppni séu lögmætar.

Eftirlitið snýr bæði að því hvernig EES-reglurnar eru innleiddar í íslenskan rétt og hvernig þeim er síðan framfylgt af stjórnvöldum. ESA gegnir einnig mikilvægu hlutverki varðandi samkeppnismál sem hafa áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu þ.e. að tryggja réttmæta samkeppni fyrirtækja, og hafa eftirlit með ríkisstyrkjum og opinberum innkaupum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert