Úraræningjar í fimm ára fangelsi

Pawel Jerzy Podburaczynski í Héraðsdómi.
Pawel Jerzy Podburaczynski í Héraðsdómi. mbl.is/Sigurgeir

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Grzegorz Marcin Novak og Pawel Jerzy Podburaczynski í fimm ára fangelsi fyrir að hafa ráðist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi á starfsfólk úra- og skartgripaverslunarinnar Michelsen í október sl.

Í niðurstöðu dómsins segir að við þingfestingu málsins og við aðalmeðferð hafi Novak og Podburaczynski játað aðild sína að ráninu. Þeir hafi hins vegar neitað skipulagningu og fjármögnun ránsins.

„Af skýrslum ákærðu og Marcin Lech má ráða að ferðin til Íslands hafi verið skipulögð í Póllandi beinlínis í þeim eina tilgangi að stela úrum úr verslun Michelsen. Þegar í ljós kom að ekki var hægt að stela úrunum með því að brjótast inn í verslunina ákváðu ákærðu að ræna hana. Af skýrslum ákærðu og Marcin verður ekki annað ráðið en það hafi verið sameiginleg hugmynd þeirra, en skipulagningin í Póllandi hafi miðast við innbrot,“ segir í niðurstöðu dómsins en Marcin Lech var einnig dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir sinn þátt í ráninu.

Við ákvörðun refsingar leit dómurinn til þess að mennirnir, í félagi við tvo aðra, stóðu að vel skipulögðu ráni þar sem miklum verðmætum var rænt. Við ránið hafi verið notaðar leikfangaskammbyssur. Starfsfólk verslunarinnar hafi þó ekki vitað annað en að um raunveruleg vopn hefði verið að ræða og af skýrslum þess mætti ráða að það hefði upplifað ránið á þann hátt. 

Að auki er mönnunum tveimur gert að greiða Vátryggingafélagi Íslands hf. 14.106.453 krónur með vöxtum, vegna úranna sem þeir rændu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert