Ljós við enda ganganna

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, er nú staddur í Strassborg í Frakklandi þar sem hann tekur þátt í þingmannafundi Evrópuráðsins. Í dag tók hann þátt í sérstakri umræðu banka- og efnahagskreppuna í Evrópu. Steingrímur flutti erindi þar sem hann sagði m.a. að það væri ljós við enda ganganna.

Steingrímur fjallaði um stefnumörkun og ráðstafanir sem gripið hafi verið til hér á landi til að bregðast við fjármálahruninu og árangur í þeim efnum.

Í ræðu Steingríms kom fram að Íslands hafi komist í gegnum efnahagskreppuna, en ekki einvörðungu með því að grípa til aðhaldsaðgerða. Hann benti á að fjármagnstekjuskattur hefði verið hækkaður og einnig skattur á áfengi og tóbak. Þá hefðu íslensk stjórnvöld kynnt sérstakan auðlegðarskatt.

Hann benti á að í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá væri mikilvægt að aðlaga alla aðstoð í samræmi við þarfir viðkomandi þjóðar. Steingrímur sagði að AGS hefði séð að Íslandi væri alvara, því íslensk stjórnvöld hefðu viljað varðveita hið norræna velferðarsamfélag á tímum efnahagsþrenginga.

Fundurinn stendur yfir dagana 25. til 29. maí.

Fram kemur á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, að í umræðunni í Evrópuráðinu verði sjónum m.a. beint að því hvort í niðurskurði ríkisútgjalda felist ógn gagnvart lýðræðinu og félagslegum réttindum og hvort hagsmunir þeirrar kynslóðar sem nú sé að vaxa úr grasi verði fyrir borð bornir.

Umfjöllun á vef Evrópuráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert