11,6 milljarðar fyrir gjaldþrota félag

Heildartap ríkisins vegna viðskipta í tengslum við Sjóvá nemur 3,4 …
Heildartap ríkisins vegna viðskipta í tengslum við Sjóvá nemur 3,4 - 4,8 milljörðum króna.

Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ríkissjóður hafi veitt 11,6 milljarða króna lán vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Sjóvár árið 2009.

Árið 2010 var krafan færð til eignaumsýslufélags í eigu Seðlabanka Íslands, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., og síðar breytt í hlutafé.

Eignarhlutur Seðlabankans í Sjóvá var þá 73%. Sama ár seldi Eignasafn Seðlabankans rúmlega 52% hlut í félaginu og hefur kaupandinn rétt til að kaupa það tæpa 21% sem eftir stendur.

Heildartap ríkisins vegna þessara viðskipta nemur á bilinu 3,4-4,8 milljörðum króna. Í skýrslunni segir að tapið komi ekki á óvart enda hafi ríkið greitt 11,6 milljarða króna fyrir eignarhlut í félagi sem í reynd hafi verið gjaldþrota.

Hins vegar telur Ríkisendurskoðun ekki tilefni til að gera athugasemdir við söluferlið eða ákvarðanir forsvarsmanna Seðlabankans og ESÍ í þessu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert