90% telja ríkisstjórn fela upplýsingar

Einungis 2% telja að ríkisstjórnin leyni aldrei upplýsingum sem eiga …
Einungis 2% telja að ríkisstjórnin leyni aldrei upplýsingum sem eiga erindi við almenning og varða almannahagsmuni mbl.is/Kristinn

50% fólks telja að ríkisstjórnin leyni oft mikilvægum upplýsingum um umhverfis-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál sem eigi erindi við almenning og varði almannahagsmuni. Um 40% telja að ríkisstjórnin leyni stundum slíkum upplýsingum. Einungis um 10% fólks telja ríkisstjórnina sjaldan eða aldrei leyna slíkum upplýsingum.

Þetta kom fram á hádegisfyrirlestri í Háskóla Íslands sem nú stendur yfir, en þar fjallar dr. Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor í upplýsinga- og skjalastjórn við félagsvísindasvið HÍ, um niðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var vorið 2012 um viðhorf fólks til upplýsingagjafar opinberra stofnana, en þá er átt við: ríkisstjórn, ráðuneyti, sveitarfélög og stofnanir þeirra, þjónustustofnanir á vegum ríkisins og eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins.

Lagðar voru fyrir tvær beinar spurningar um umræddar stofnanir. Sú fyrri var svohljóðandi: „Telur þú að eftirtaldir opinberir aðilar leyni mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning og varða almannahagsmuni (umhverfis-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál) oft, stundum, sjaldan eða aldrei, sjái þeir ástæður til þess?“

2% telja sveitarfélög aldrei leyna upplýsingum

Sömu spurningar voru lagðar fyrir um stofnanir og sveitarstjórnir. 47% telja ráðuneytin oft leyna upplýsingum og 41% stundum. 12% telja að slíkt gerist sjaldan eða aldrei.

52% aðspurðra telja stundum að sveitarfélög og stofnanir þeirra leyni upplýsingum er varði almannahagsmuni. 26% telja líkt gerast oft. Einungis 2% telja sveitarfélög og stofnanir þeirra aldrei leyna upplýsinginum um almannahagsmuni.

Staðan er betri þegar kemur að þjónustustofnunum ríkisins. Þá telja einungis 28% að þær leyni oft upplýsingum sem varði almannahagsmuni. Hins vegar telja 48% að þær leyni stundum upplýsingum. 24% telja slíkt sjaldan eða aldrei gerast.

Traustið síst meira varðandi upplýsingar um almannafé

Síðari spurningin var svohljóðandi: „Telur þú að eftirtaldir opinberir aðilar leyni mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning (skattgreiðendur) og varða opinber útgjöld, þ.e. úthlutun á almannafé (styrki og fjárveitingar, verksamninga til opinberra verkefna o.þ.h.) oft, stundum, sjaldan eða aldrei, sjái þeir ástæður til þess?“

43% svarenda telja að ríkisstjórnin leyni oft almenning upplýsingum er varða ráðstöfun á almannafé. 38% telja slíkt gerast stundum. Alls telur því 81% svarenda ríkisstjórn vísvitandi gera slíkt stundum eða oft. 4% telja slíkt aldrei gerast.

Þegar spurt er um ráðuneytin telur 41% þau oft leyna upplýsingum um fjármál ríkisins, 41% telur slíkt stundum gerast og 3% aldrei.

29% telja að sveitarfélög og stofnanir leyni oft upplýsingum er varða fjármálaleg atriði sveitarfélaga. 46% telja slíkt stundum gerast. Einungis 3 af 100 telja sveitarfélög aldrei leyna slíkum upplýsingum.

30% telja þjónustustofnanir á vegum hins opinbera oft leyna upplýsingum sem eigi erindi við almenning og varði almannafé. 43% telja slíkt stundum gerast.

Þegar spurt var um eftirlitsstofnanir ríkisins telur 31% þær oft leyna upplýsingum um þessi mál og 40% stundum.

Könnunin var gerð 15. mars til 16. apríl og byggðist á svörum 1.270 manna, 18 ára og eldri. Spurningar voru lagðar fyrir 1.898 manns og svarhlutfall var því 66,91%.

78% aðspurðra telja að sveitarfélög leyni stundum eða oft upplýsingum …
78% aðspurðra telja að sveitarfélög leyni stundum eða oft upplýsingum er varða almannahag. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert