Er rétt að velja eftir einkunnunum?

Atli Harðarson, skólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands
Atli Harðarson, skólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands mbl.is

Nemendum sem koma úr framhaldsskólum á landsbyggðinni hefur vegnað ívið betur í grunnnámi í háskóla en þeim sem koma úr framhaldsskólum á Reykjavíkursvæðinu. Atli Harðarson, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, veltir því fyrir sér hvort meiri blöndun nemenda í landsbyggðarskólum geti skipt þar máli. Þetta kemur fram í grein sem Atli ritar í Morgunblaðið í dag.

Að sögn Atla munar ekki miklu á einkunnum nemenda af landsbyggðinni og þeirra sem koma af höfuðborgarsvæðinu en sé litið til þess að einkunnir á samræmdum prófum í grunnskólum eru talsvert mikið hærri á Reykjavíkursvæðinu en landsbyggðinni má vænta þess að stúdentum úr borginni vegni betur en þeim sem koma utan af landi.

„Þar sem nemendur koma betur undirbúnir inn í framhaldsskóla má að öðru jöfnu gera ráð fyrir að þeir komi með meiri lærdóm út úr þeim.

Svipað er uppi á teningnum þegar gögn um námsgengi, sem dreift var í fyrra, eru skoðuð. Af stúdentum úr framhaldsskólum utan af landi sem hófu nám við HÍ eftir 2000 höfðu 36% lokið námi í fyrra. Sambærileg tala fyrir Reykjavíkursvæðið var 34%,“ skrifar Atli.

Að sögn Atla taka framhaldsskólar úti á landi nær allir við sundurleitum hópi nemenda. „Þar blandast t.d. saman þeir sem fengu háar og lágar einkunnir við lok grunnskóla. Á höfuðborgarsvæðinu virðast nemendur hins vegar raðast í skóla eftir einkunnum þannig að stór hluti þeirra sem fá hæstu einkunnirnar upp úr tíunda bekk safnast í fáa skóla.

Sjálfur hef ég starfað við fjölbrautaskóla, sem tekur við heilu bekkjunum upp úr grunnskóla, síðan 1986 og reynslan hefur sannfært mig um að fjölbreytileiki mannlífsins í skólanum hefur góð áhrif á allan hópinn. Öflugustu námsmennirnir hrífa aðra með sér og hinir sem minna geta setja pressu á kennarana að leita sífellt leiða til að kenna svo efnið verði sem skiljanlegast.

Ég held að það sé vel þess virði að skoða hvort of einsleitir nemendahópar í framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins eigi einhvern þátt í að dreifbýliskrakkar, sem voru eftirbátar þeirra á samræmdum prófum í grunnskóla, stinga þá af í háskóla. Ef svo er þá er e.t.v. ástæða til að velja milli umsækjenda um skólavist með öðrum hætti en nú er gert,“ skrifar Atli í Morgunblaðið í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert