Blær í mál við Ögmund

Björk Eiðsdóttir og dóttir hennar, Blær Bjarkardóttir.
Björk Eiðsdóttir og dóttir hennar, Blær Bjarkardóttir. Ljósmyndari/ Óskar Páll Elfarsson

Fjórtán ára stúlka í Reykjavík hefur höfðað mál gegn Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra til þess að fá ógiltan úrskurð mannanafnanefndar um að hún megi ekki heita Blær. Blær var gefið nafnið við skírnarathöfn en eftir skírnina uppgötvaði presturinn að nafnið var ekki á mannanafnaskrá.

Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem reynt er að hnekkja úrskurði mannanafnanefndar fyrir dómstólum. Úrskurðum nefndarinnar er ekki hægt að áfrýja til innanríkisráðuneytisins og því var ekki önnur leið fær en að höfða dómsmál gegn innanríkisráðherra til að fá ákvörðun nefndarinnar breytt.

„Hvernig líst ykkur á nafnið Blædís?“

„Ég fann þetta nafn í Brekkukotsannál og var löngu búin að ákveða að ef ég eignaðist dóttur myndi hún heita Blær,“ segir Björk Eiðsdóttir blaðamaður.

Blær, dóttir hennar, verður 15 ára í sumar. Henni var gefið nafn við skírnarathöfn í Garðabæ árið 1997 af séra Hans Markúsi Hafsteinssyni. Viku síðar kom hann að máli við foreldrana og tilkynnti þeim að nafnið Blær væri ekki skráð sem kvenmannsnafn í mannanafnaskrá og því hefðu átt sér stað mistök. Hann var ekki tilbúinn til að gefa út skírnarvottorð með nafninu Blær.

Björk segir að presturinn hafi komið fram með lausn á málinu og sagt: „Hvernig líst ykkur á nafnið Blædís?“ Björk segir að búið hafi verið að skíra barnið og því hafi ekki komið til greina að snúa til baka með það. Hún hafi því sótt um að fá nafnið Blær skráð sem kvenmannsnafn í mannanafnaskrá, en því var hafnað. Hún lagði málið aftur fyrir nefndina, en fékk sama svar. Blær er hins vegar skráð í mannanafnaskrá sem karlmannsnafn.

Björk segir að hún hafi mikið reynt til að fá niðurstöðu í þetta mál og m.a. leitað til forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og biskups Íslands. Ráðherrarnir hafi ekki svarað erindinu.

„Who is Stulka?“

Blær er skráð sem „Stúlka Bjarkardóttir“ í þjóðskrá og þeirri skráningu hefur ekki enn verið breytt þó Blær sé að verða 15 ára. Blær heitir einnig „Stúlka“ í vegabréfinu. Björk þurfti að standa í stappi með að fá yfirleitt vegabréf fyrir dóttur sína, en það hafðist á endanum.

„Við fluttum til Bandaríkjanna þegar hún var 4 ára. Ég áttaði mig svo á að ég þyrfti að kenna henni hvað hún héti þegar hún færi í gegnum tollinn í Ameríku því einhvern tímann spurði tollvörður: „Who is Stulka?“ og þá sýndi Blær engin viðbrögð,“ segir Björk og brosir. „Við þurftum því að kenna henni að stundum heitir hún Stúlka.“

Blær hefur verið skráð undir réttu nafni í skólanum og hún er af öllum kölluð Blær, enda var hún skírð því nafni. Þegar hún fer í banka og á samskipti við opinberar stofnanir er hún minnt á að nafnamál hennar er enn óútkljáð.

Ein kona skráð undir nafninu Blær í þjóðskrá

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá lögmannsstofunni Lex, fer með þetta mál fyrir hönd Blævar. Fyrirtaka var í málinu í dag. Hann segir krafa sé gerð um að úrskurður mannanafnanefndar verði dæmdur ógildur. Jafnframt er farið fram á að ríkið greiði Blæ miskabætur vegna framgöngu þess í málinu.

Arnar segir að ein kona heiti Blær í þjóðskrá, en hún er fædd 1973. Árnastofnun hafi einnig staðfest að Blær hafi verið notað hér á landi bæði sem karlmanns- og kvenmannsnafn. Í bókinni Nöfn Íslendinga sé af finna nafnið Blær sem kvenmannsnafn. Það séu því sterk rök fyrir því að heimila kvenmannsnafnið Blæ í mannanafnaskrá. Þar að auki sé búið að skíra Blæ þessu nafni og hún hafi borið það í 14 ár.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um eitt mál af þessum toga, en þar var tekist á um bann finnskra stjórnvalda við því að maður fengi að heita nafninu Axl. Maðurinn vann málið.

Arnar er bjartsýnn á að Blær vinni málið. Björk segir að Blær bíði spennt eftir niðurstöðunni. Það sé tímabært að ljúka þessari þrætu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert