Fá 300 milljónir í styrk frá ESB

mbl.is/Reuters

Evrópusambandið hefur ákveðið að veita Fræðslumiðstöð atvinnulífsins 1.875 þúsund evrur, tæpar 300 milljónir króna, í styrk til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun.

Styrkurinn, sem verður greiddur út á þremur árum, er hluti af styrkjakerfi Evrópusambandsins sem kallast Instrument for Pre-Accession Assistance (IPA) og eru veittir þjóðum sem eiga í aðildarviðræðum um inngöngu í ESB. Fræðslusjóður hefur samþykkt að tryggja verkefninu mótframlag.

Snemma árs 2011 fólu stjórnvöld Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) það hlutverk að gera verkefnalýsingu vegna IPA styrkja frá Evrópusambandinu. Markmið þessara verkefna er að búa Íslendinga undir þátttöku í ýmsum viðfangsefnum Evrópusambandsins svo sem stuðningsaðgerðum vegna atvinnuuppbyggingar og byggðamála, segir í tilkynningu.

Verkefni FA ber heitið „Þróun raunfærnimats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun“.  Með verkefninu verður þróun þeirra sviða sem það nær til miklu hraðari en ella hefði verið mögulegt.

„Markmið verkefnisins er að auka starfshæfni fólks á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla. Þessu markmiði verður náð með því að auka skilvirkni framhaldsfræðslunnar með áherslu á áframhaldandi þróun raunfærnimats og með uppbyggingu gagnagrunns um störf og nám. Starfsemi FA hefur beinst að þessum hópi sem jafnframt er markhópur Fræðslusjóðs. Sjóðurinn var settur á laggirnar í lok árs 2010, við gildistöku laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu, og starfar á grundvelli þeirra laga. Verkefnið fellur því vel að starfsemi FA og Fræðslusjóður hefur samþykkt að tryggja verkefninu það mótframlag sem Evrópusambandið fer fram á.

Lagt er upp með viðamikið samstarf til að ná markmiðum verkefnisins. Við undirbúning þess var haft samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og aðila vinnumarkaðarins ásamt fjármálaráðuneyti og Sérfræðisetur um ævilanga náms- og starfsráðgjöf. Fyrirhugað er samráð við Félag framhaldsskóla og fræðsluaðila í framhaldsfræðslu ásamt Hagstofu Íslands. 

Það er einn helsti veikleiki í mennta- og hagkerfi Íslands hve stór hluti vinnuaflsins hefur lágt menntunarstig. Ríkisstjórn Íslands hefur lýst því yfir að hún hyggist vinna að því að hlutfall vinnuafls án menntunar á framhaldsskólastigi verði ekki hærra en 10% árið 2020. Þetta markmið er samhljóða markmiðum í stefnu Evrópusambandsins en þar er meðal annars kallað eftir betri menntun, félagslegri aðlögun, samkeppnishæfni og aðgerðum til að berjast gegn atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert