Eru alltaf borgarfulltrúar

Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins.
Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins. Gunnar Svanberg Skulason

Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar segir að borgarfulltrúar séu ávallt fulltrúar borgarinnar út á við. Hann telur mikilvægt að þeir séu vakandi yfir mögulegum hagsmunatengslum hvort sem er innan eða utan starfa í þágu borgarstjórnar.

Þetta kemur fram í svari sem hann sendi vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um siðareglur borgarfulltrúa. Fyrirspurnin var lögð fram í kjölfar þess að Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins og tveir embættismenn borgarinnar fóru í ferð í boði WOW air til Parísar.

Siðareglur Reykjavíkurborgar kveða á um að kjörnir fulltrúar þiggi ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim sem leita eftir þjónustu Reykjavíkurborgar nema um sé að ræða óverulegar gjafir.

Einar Örn hefur gefið þá skýringar að honum hafi verið boðið í ferðina sem æskuvinur stofnanda flugfélagsins, en ekki sem borgarfulltrúi

„Kjörnir fulltrúar og embættismenn hafa mörgum og ólíkum hlutverkum að gegna utan starfa í þágu Reykjavíkurborgar en þó er ávallt litið á þessa aðila sem fulltrúa borgarinnar út á við og í opinberri umræðu. Í 1. grein siðareglna borgarfulltrú er enda lögð áhersla á að þær skilgreini háttsemi í öllum störfum borgarfulltrúa og út í gegnum reglurnar er kveðið á um að ávallt skuli hafa í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu. Því er vert að undirstrika mikilvægi þess að aðilar séu vakandi yfir mögulegum hagsmunatengslum sem kunna að koma upp í samskiptum og störfum hvort sem er innan eða utan starfa í þágu borgarstjórnar,“ segir í bréfi innri endurskoðanda sem lagt var fyrir borgarráð í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert