Bíll gjörónýtur eftir veltu

3 voru fluttir á slysadeild eftir slæma bílveltu í dag.
3 voru fluttir á slysadeild eftir slæma bílveltu í dag. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Ferðamenn frá Hong Kong slösuðust alvarlega þegar bíll valt af vegi við Finnafjörð við Gunnólfsvíkurfjall skammt frá bænum Felli um hálfsexleytið í dag. Að sögn lögreglunnar á Húsavík virðist sem ökumaður hafi misst vald á bílnum, sem var Mússójeppi. Vegarkaflinn er nokkuð torfarinn, en um er að ræða malarveg sem er slæmur yfirferðar að mati lögreglu. Óhappið varð rétt við svokallaðan Bolabás, þar sem þverhnípt er niður í sjó en bíllinn lenti upp í hlíðina hinum megin. Fimm manns voru í bílnum og voru þrír fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur, þar af einn alvarlega slasaður. 

Fjarlægja þurfti bílflakið með krana, en bifreiðin er ónýt eftir slysið. 

Ekki fengust upplýsingar um líðan farþegans sem verst slasaðist.

Að sögn íbúa í Langanesbyggð kemur ekki á óvart að alvarleg slys verði á veginum, en lengi hefur gætt óánægju meðal þeirra með að grýttur malarvegur sé svo til alla leiðina með ströndinni til Bakkafjarðar. Lengi hefur verið kallað eftir úrbótum. Á þessari leið er einnig skólaakstur og fer því skólabíll daglega torfarna leiðina yfir vetrar- og haustmánuði á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar með nemendur.  

Bíllinn var gjörskemmdur eftir atvikið.
Bíllinn var gjörskemmdur eftir atvikið. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert