Iceland opnar 28. júlí

Stefnt er að því að opna verslun 28. júlí nk. …
Stefnt er að því að opna verslun 28. júlí nk. Jóhannes Jónsson er framkvæmdastjóri Iceland á Íslandi. mbl.is/Skapti

Matvöruverslun Iceland keðjunnar mun opna í Engihjalla í Kópavogi 28. júlí næstkomandi. Sama dag stendur til að opna netverslun undir sama merki sem mun senda vörur til viðskiptavina um allt land. Búið er að ráða starfsfólk í allar stöður sem þegar hefur hafið störf.

„Það er verið að vinna hér á fullu og við munum opna 28. júlí,“ segir Jóhannes Jónsson, áður kenndur við Bónus en nú framkvæmdastjóri Iceland á Íslandi.

„Um svipað leyti munum við opna netverslun sem verður inni í Sundaborg þannig að það opna þá tvær vonandi sama daginn.“

Iceland mun opna sína fyrstu verslun á Íslandi í Engihjalla í Kópavogi í húsnæði sem áður hýsti verslun 10/11. Þá mun verslunin senda vörur um allt land í gegnum netverslunina. 

Starfsmennirnir hafa allir unnið hjá Bónus

Jóhannes segir að starfsfólk sé þegar komið til starfa en um 9 manns munu vinna hjá versluninni til að byrja með. „Þetta er allt þaulvant fólk sem hefur unnið hjá mér áður í Bónus.“

Jóhannes segir að Iceland verði hefðbundin íslensk lágvöruverslun en muni þó selja heilmikið af vörum sem framleiddar eru undir merkjum Iceland. „Um 70 prósent af vörunum í íslenskum matvöruverslunum eru innlend framleiðsla og þannig verður það hjá okkur enda það sem viðskiptavinurinn vill,“ segir Jóhannes.

Aðspurður um eignarhaldið segir Jóhannes aðeignarhlutur Iceland á Íslandi verði skipt til helminga milli hans sjálfs og Malcolm Walker, stofnanda og forstjóra Iceland keðjunnar. Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu stendur Jóhannes einn að baki sínum eignarhlut en Jón Ásgeir, sonur hans, er ekki hluthafi en þeir feðgar stofnuðu Bónus í sameiningu árið 1989.

Iceland verslunarkeðjan var stofnuð af Malcolm Walker og félaga hans í Bretlandi árið 1970. Nafnið kom til vegna þess að í upphafi sérhæfði verslunin sig í sölu á frosinni matvöru. Iceland verslunarkeðjan rekur nú um 750 verslanir í Bretlandi.

Iceland Food rekur um 750 verslanir í Bretlandi. Nú bætast …
Iceland Food rekur um 750 verslanir í Bretlandi. Nú bætast við ein matvöruverslun og ein netverslun á Íslandi. Af vef Iceland Food
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert