Strandar á makríldeilunni

Endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem verið hefur í gangi undanfarin misseri er ekki forsenda þess að hægt sé að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í sambandið. Þetta kom fram í máli Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á blaðamannafundi í morgun.

Hins vegar sagði hún að skiptar skoðanir væru í ráðherraráði Evrópusambandsins, þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar sambandsins eiga sæti þegar rætt er um sjávarútvegsmál, um það hvort hefja eigi viðræður um sjávarútvegsmál við Íslendinga í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í sambandið. Þar væri makríldeilan í aðalhlutverki.

Damanaki lagði þunga áherslu á mikilvægi þess að ná samkomulagi um makrílveiðarnar. En til þess yrðu allir að vera reiðubúnir að taka þátt í að ná lendingu í málinu. Hún sagðist trúa því að hægt væri að ná samningi í þeim efnum. Boltinn væri hins vegar hjá íslenskum stjórnvöldum í þeim efnum.

Þá sagðist Damanaki aðspurð vona að hægt væri að hefja viðræðurnar um sjávarútvegsmálin í tengslum við umsóknina bráðlega. Ennfremur lagði hún áherslu á það að í viðræðum um þau yrði Ísland að vera reiðubúið að fara að löggjöf Evrópusambandsins í þeim málaflokki.

Frá blaðamannafundinum í morgun.
Frá blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert