Reisa íþróttahöll í Hveragerði

Það ríkir gleði og mikið fjör í hópnum sem unnið hefur að því í gær og í dag að koma upp nýrri íþróttahöll í Hveragerði, sem kallast Hamarshöllin. Höllin er ekki af hefðbundinni gerð því er úr dúk og verður uppblásin.

Verkefnið felst í að draga út hallardúkinn og að koma honum á rétta staði en hann er níðþungur og því þarf fjölmenni til að færa hann úr stað. Það var einstök sjón að verða vitni að því þegar tugir einstaklinga raðaði sér á kantinn og hljóp síðan með dúkinn á fullri ferð yfir völlinn. Smám saman færðist hvítur litur yfir svæðið sem á allra næstu dögum mun breytast í eitt glæsilegasta íþróttasvæði landsins, eins og segir í fréttatilkynningu frá bænum.

Þegar dúkurinn er kominn í réttar skorður þarf að bolta saman hlutana og var sjálfboðaliðahópurinn orðinn ótrúlega sjóaður í þeim vinnubrögðum þegar vinnu lauk á tíunda tímanum í gærkvöldi. Haft var á orði að stemningin hefði verið eins og á góðum réttardegi, fjör, gleði og hlátrasköllin glumdu um allt svæðið.

Þeir erlendu aðilar sem hafa yfirumsjón með verkinu eru yfir sig hrifnir og hafa sjaldan ef nokkurn tíma orðið vitni að viðlíka viðbrögðum hjá bæjarbúum þar sem þessi hús hafa verið sett upp. Vinnan heldur áfram á morgun.

Hamarshöllin verður fjölnota íþróttahöll sem hýsir gervigrasvöll og fjölnota íþróttagólf í fullri stærð. Stærð íþróttahallarinnar er um 5.000 m². Höllin er upphituð úr tvöföldum dúk sem er borinn uppi af innri loftþrýstingi og loftþrýstingi á milli ytra og innra lags í útveggjum og þaki. Áætlaður kostnaður við húsið er um 230 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert