Davíð svarar Guðna

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Þór Jónsson, guðfræðingur og fræðslufulltrúi Austurlandsprófastdæmis, segir það rétt Guðna Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra, að höfða mál gegn honum. Davíð Þór segir ekki rétt að hann væni Guðna um að hafa starfað með nasistahreyfingunni.

Guðni Ágústsson íhugar nú hvort hann eigi að höfða mál gegn Davíð Þór en Guðna mislíkar mjög ummæli í grein Davíðs Þórs, Að kjósa lygara og rógtungu, sem Davíð Þór birti á heimasíðu sinni daginn fyrir forsetakosningarnar. Guðni ræddi málið við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, í gær.

„Það er hans réttur. Ef hann telur að það sé eitthvað í skrifum mínum sem fellur undir meiðyrðalöggjöf, þá getur hann gert það. Í eina skiptið sem hann víkur efnislega að málinu er þegar hann segir að ég væni hann um að hafa starfað í nasistahreyfingunni „Norrænt mannkyn“. Það er ekki rétt. Ég vísa einungis á grein þar sem tveir fyrrum formenn þeirra samtaka halda því fram,“ segir Davíð Þór.

Guðni sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að hann sætti sig ekki við persónulegar svívirðingar og að hann geri meiri kröfur til manna sem gengið hafi í guðfræðideild og lært siðfræði. Davíð veltir því fyrir sér hvað hann eigi við með því.

„Meiri kröfur um hvað? Að þeir menn tipli á tánum og noti ekki orð eins og „lygar“ og „rógur“? Eru „ósannindi" og „dylgjur“ betri orð? Má starfsfólk kirkjunnar ekki nýta sér tjáningarfrelsið án þess að tala undir rós?,“ segir Davíð Þór, og furðar sig á því hvers vegna Guðni taki ekki fram í hverju svívirðingarnar og níðið er fólgið. 

Að sögn Guðna ræddi hann málið við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, í gær um ummæli Davíðs.

„Ég hef ekkert heyrt frá henni ennþá. Ég á samt frekar von á því að hún setji sig í samband við mig og ræði þessi mál við mig. Ég þekki Agnesi af góðu einu og efast ekki um að við getum sest niður og rætt þetta mál,“ segir Davíð Þór.

Frétt Morgunblaðsins í heild:

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, íhugar nú hvort hann eigi að höfða mál gegn Davíð Þór Jónssyni, guðfræðingi og fræðslufulltrúa Austurlandsprófastdæmis. Guðna mislíkar mjög ummæli í grein Davíðs Þórs, Að kjósa lygara og rógtungu, sem Davíð Þór birti á heimasíðu sinni daginn fyrir forsetakosningarnar. Guðni ræddi málið við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, í gær.

„Maður gerir meiri kröfur til manna sem hafa gengið í guðfræðideild og lært siðfræði og ætla að boða hið góða orð kirkjunnar en annarra. Það hefur Davíð Þór gert og hann býður sig sjálfsagt síðar fram til prestvígslu. Hann hefur fengið starf hjá kirkjunni við að þjóna börnum og unglingum sem fræðslufulltrúi. Ég geri miklar kröfur til manna í þessari stöðu og sætti mig ekki við svo persónulegar svívirðingar og níð um forseta landsins sem þarna birtust. Svo vænir hann mig um að hafa starfað í nasistahreyfingu. Guð hjálpi mér! Sannarlega hef ég haft skömm á nasistum alla tíð og aldrei gengið þeim á hönd. Ég hef verið í Framsóknarflokknum, þjóðkirkjunni og ungmennafélagshreyfingunni,“ sagði Guðni. Hann kvaðst ekki sætta sig við að vera borinn slíkum sökum og hafa því talað við biskup Íslands.

„Ég sagði við hana að mér þætti þetta vera ófær framkoma hjá hennar þjóni. Ég gerði kröfur til þess sem heiðarlegur maður og kristinn að þessi maður gjaldi fyrir orð sín bæði í minn garð og forsetans.“

Guðni sagðist aðspurður ekki hafa haft samband við Davíð Þór vegna greinarinnar. „Ég hef ekkert við svona menn að tala. Þetta eru slíkar dylgjur og dónaskapur að annaðhvort hefur maðurinn ekki verið allsgáður eða hann stríðir við eitthvað sem gerir hann óhæfan til að takast á við þau verkefni sem hann sinnir.“

Guðni sagðist hafa lært að sætta sig við gagnrýni og átök á hinum pólitíska velli en nú hafi sér verið brugðið. „Auðvitað íhuga ég hvort svona mann eigi ekki að draga fyrir dómstóla landsins. Ég geri þær kröfur að kirkjan taki á þessu vandamáli.“

Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jónsson. mbl.is
Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert