Efast um heimsókn hvítabjarnar

Karl Skírnisson, dýrafræðingur á Keldum, hefur miklar efasemdir um að hvítabjörn hafi verið á ferli í Húnaflóa í fyrradag. Karl hefur rannsakað alla hvítabirni sem hafa verið felldir hér undanfarin ár.

Karl telur líklegast að dýrið sem ítalskur ferðamaður sá í sjónum við Geitafell á Vatnsnesi hafi verið útselur. Hann telur ólíklegt að slóð sem sást í sandfjöru við Geitafell hafi verið eftir hvítabjörn. 

„Við höfum í höndunum myndir af fótsporum í sandinum og myndir sem ítalski ferðamaðurinn tók af dýrinu,“ sagði Karl. „Í báðum tilvikum eru myndirnar óskýrar. Væru þær skýrar þá tækju þær af allan vafa.“ 

Sporin ólík fótförum hvítabjarna

Karl sagði sporin vera mörkuð í laust undirlag. Hann kvaðst hafa grandskoðað lögun hvítabjarnaspora og það geti allir gert með því að fara t.d. á Netið. 

„Frávikin frá hefðbundnum hvítabjarnasporum eru fyrst og fremst á þessari tilteknu mynd afturhluti sporsins. Það er dýpst aftast. Hvítabjarnaspor eiga að vera dýpst fremst þar sem eiga að myndast för eftir þófa aftan við hverja tá og síðan þverþófa sem kemur þar fyrir aftan. Frá honum á að myndast skáhallt spor sem jafnast út í yfirborið aftast. 

Á þessari mynd er spor sem er bogalagað aftast og dýpst þar. Þetta far er eftir eitthvað sem hefur sett mesta átakið aftast í sporið. Það gerir hvítabjörn ekki.“ 

Líklega útselur á ferð

Karl hefur einnig skoðað myndir sem ítalski ferðamaðurinn tók af meintum hvítabirni í sjónum við Geitafell á miðvikudaginn var. „Mér finnst, sérstaklega á einni myndinni, að ég sjái haus á útsel sem reisir sig upp úr sjónum. Ég hef oft séð seli reisa sig upp til þess að fylgjast með því sem er að gerast í landi. Ég segi ekki að hvítabjörn geti ekki reist sig svona upp úr sjónum en það er ekki eðlileg stelling. Venjulega sést ekki nema í hausinn.

Þá virðist dýrið vera grátt en ekki hvítt og dekkra efst á hausnum en neðar. Svo er það lýsing ferðamannsins sem segir að dýrið hafi horfið í sjóinn. Hvítabjörn er spendýr sem andar og syndir í yfirborðinu. Maðurinn hefði átt að sjá hvítabjörninn synda í burtu en þetta dýr kafaði og hvarf. Það gerir bara hvítabjörn ekki,“ sagði Karl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert