Gagnrýnir forystumenn VG harðlega

Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra.
Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra. mbl.is

„Margir hafa undrast að jafn skeleggur maður og Steingrímur skuli ekki taka fastar á þegar hættu ber að höndum og miklir hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi,“ segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra og áhrifamaður innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanns flokksins í makríldeilunni.

Ragnar segir á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB í dag að Steingrímur láti sér nægja að vera „einhvers konar hjálparkokkur“ Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, og spyr hvað hann hafi gert til þess „að leggja aukinn þunga á réttmæta hagsmuni Íslendinga“ í makríldeilunni.

Þá gagnrýnir hann einnig Árna Þór Sigurðsson, þingmann VG og formann utanríkismálanefndar Alþingis, harðlega og segir hann hafa fátt til málanna að leggja í fjölmiðlum annað en „innantómar vangaveltur um hvort ESB ætli eða ætli ekki að tengja saman aðildarumsóknina og makrílveiðarnar.“

Ragnar segir það vera skyldu Árna að kalla saman fund í utanríkismálanefnd þingsins „til að mótmæla ósvífni og yfirgangi ESB í okkar garð og til að undirbúa tillögu til þingsályktunar um hótanir ESB sem lögð yrði fyrir Alþingi þegar það kemur aftur saman.“ Hann segist hins vegar telja litla von „til að Árni Þór sjái sóma sinn í því að standa í lappirnar í þessu máli“ þar sem hann dragi í efa „að hótanir ESB séu hótanir.“

Grein Ragnars Arnalds

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert