Þétt umferð í bæinn

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Þétt umferð hefur verið á Suðurlandi frá því síðdegis í dag en margir hafa verið að snúa til síns heima eftir ferðalög helgarinnar. Lögreglan á Selfossi segir að umferðin hafi gengið áfallalaust fyrir sig. Tveir ökumenn hafa verið teknir grunaðir um að aka undir áhrifum vímuefna á milli kl. 19:30 og 21.

Varðstjóri á Selfossi væntir þess að það fari að draga úr umferðinni um ellefuleytið í kvöld. Hún hafi verið mikil á Biskupstungnabraut og á Suðurlandsvegi frá því síðdegis. Það jákvæða við þétta umferð sé að þá dragi úr hraðanum og þar með úr líkunum á alvarlegum umferðarslysum.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi var þétt umferð frá því um hádegisbil í dag fram að kvöldmatarleytinu. Eftir það dró talsvert úr henni. Þá hefur allt gengið áfallalaust að sögn lögreglunnar í Borgarnesi.

Seint í gærkvöldi slasaðist ökumaður vélhjóls þegar hann féll af því á Suðurlandsvegi við Skeiðavegamót. Hann var fluttur á slysadeild en hann er ekki sagður vera alvarlega slasaður. Talið er að hann hafi handleggsbrotnað. Lögreglan segir að það hafi verið manninum til happs að hann var vel búinn með hjálm og í viðeigandi hlífðarfatnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert