„Þetta eru mjög ámælisverð vinnubrögð“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir vinnubrögð stjórnvalda mjög ámælisverð vegna þeirrar ákvörðunar að Ísland yrði aðili að kolefniskvótakerfi Evrópusambandsins þrátt fyrir að fyrir lægi lögfræðiálit um að tilskipun sambandsins í þeim efnum stæðist hugsanlega ekki íslensku stjórnarskrána. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar í dag.

Tilefni ummælanna er frétt Morgunblaðsins í dag þar sem Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), segir umhverfisráðuneytið hafa sett ofuráherslu á að tilskipunin yrði samþykkt í vor. Þá segir hann ennfremur að SA hafi ekki skilið hvers vegna sá flýtir var nauðsynlegur og hvers vegna innleiða þurfti tilskipunin hér á landi framhjá EES-samningnum.

„Þetta eru mjög ámælisverð vinnubrögð - þingið er ekki upplýst um að umhverfisráðherra sé að óska eftir greinargerð um það hvort Evróputilskipunin standist stjórnarskrá á meðan sami ráðherra leggur ofuráherslu á að klára þetta mál fyrir þinglok,“ segir Ragnheiður.

Hún vitnar að endingu í grein Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag og spyr hvort hér sé á ferðinni handvömm af hálfu stjórnvalda eða leyndarhyggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert