Ögmundur: „Við fengum gula spjaldið“

mbl.is/Eggert

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að nokkuð hafi verið spurt um það hvort og þá hver komi til með að axla ábyrgð varðandi hælisleitendurna tvo sem tókst að smygla sér um borð í flugvél Icelandair um sl. helgi. „Ég hef svarað því til að menn séu að axla ábyrgð með því að finna brotalamirnar og laga þær,“ skrifar Ögmundur á bloggsíðu sína.

„Hið saknæma í málinu væri af allt öðrum toga, það er að segja ef mönnunum tveimur hefði verið veitt einhver aðstoð við að komast inn á flugvallarsvæðið. Ekkert hefur komið í ljós sem bendir til að svo hafi verið. Mér finnst að í þessu, sem reyndar öðru, sé mikilvægt að gera hvorki of mikið né of lítið úr þessu atviki. Við fengum gula spjaldið og drögum okkar lærdóma af því. Svo einfalt er það,“ skrifar innanríkisráðherra.  

Hann segir að mönnum hafi eðlilega brugðið í brún við að heyra fréttir af atvikinu sem átti sér stað á Keflavíkurflugvelli.

„Það á kannski helst við þá aðila sem sinna öryggismálum á svæðinu, Isavia, enda kölluðu stjórnendur þar á bæ þegar í stað lögregluna á Suðurnesjum á vettvang til að rannsaka málið. Þegar þeirri rannsókn lýkur fær Flugmálastjórn öll gögn í hendur en hún er sú stofnun sem hefur eftirlit með málefnum flugs og flugmála á Íslandi og er ábyrg gagnvart Alþjóðaflugmálastofnun,“ skrifar Ögmundur.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert