Huang segir samkomulag í höfn

Huang Nubo vill byggja upp ferðaþjónustu víðar á Norðurlöndum.
Huang Nubo vill byggja upp ferðaþjónustu víðar á Norðurlöndum. mbl.is/Ernir

Kínverski auðkýfingurinn Huang Nubo, sem er stjórnarformaður Zhongkun-fjárfestingarfélagsins, segist hafa komist að samkomulagi um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann segir í samtali við Bloomberg að formlegt samkomulag verði undirritað í síðasta lagi í október.

Haft er eftir Huang að leiguverðið verði um einni milljón dala lægra heldur en kaupverðið og yrði rétt undir 7,8 milljónum dala (um 1 milljarður kr.), að því er fram kemur í frétt Bloomberg.

Áform Huangs miðast að því að bjóða upp á ferðaþjónustu og afþreyingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Í framhaldinu hyggst hann líta til Norðurlandanna í sama tilgangi og stefnir m.a. að því að fjárfesta í Danmörku og í Svíþjóð.

„Leigusamingurinn er viðunandi og lokaniðurstaðan er ekki slæm,“ segir Huang í viðtali sem var tekið við hann í Peking í gær.

„Heildarfjárfestingin mun vera undir 200 milljónum dala, en það er ekki lítil upphæð þar [á Íslandi],“ sagði hann.

Zhongkun-fjárfestingarfélagið hyggst reisa hótel, um 100 glæsihýsi og golfvöll. Hann býst við því að félagið geti leigt svæðið til 40 ára og í framhaldinu eigi það svo rétt á því að framlengja leigutímann um önnur 40 ár.

Þá á að þróa skemmtigarð þar sem boðið verður upp á ýmiskonar útivistarafþreyingu á borð við reiðtúra, gönguferðir og svifflug.

Hann telur að salan á 100 glæsihýsum muni mögulega ein og sér ná að borga upp verkefnið, en búist er við að kaupendurnir verði kínverskir auðkýfingar.

Þá verða stofnuð fyrirtæki í tengslum við ferðaþjónustuna, hótelreksturinn og fasteignakaup. Þá er stefnt að því að setja á laggirnar félag sem mun flytja íslenskt sjávarfang til Kínverja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert