Segir hótun um refsiaðgerðir „áróður“

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir í viðtali við AFP fréttastofuna að hótanir Írlands og ESB um refsiaðgerðir gegn Íslandi í makríldeilunni séu áróður.

Írar báðu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á mánudag um upplýsingar um möguleg viðskiptahöft á Íslendinga vegna deilunnar. Í frétt AFP kemur fram að lönd ESB séu ósátt við þann kvóta sem Íslendingar og Færeyingar ætla að veiða. ESB telji að veitt verði um 36% meira af makríl í ár en stofninn þoli.

Steingrímur segir við AFP að makríllinn haldi til á íslensku hafsvæði og éti frá öðrum fisktegundum. „Við munum ekki bogna undan þrýstingi og munum standa við okkar sjónarmið,“ segir Steingrímur.

Til stendur að fulltrúar ESB, Íslands, Færeyja og Noregs fundi um makrílinn í London í haust og reyni að komast að samkomulagi um framhald veiðanna.

Steingrímur segir að verið sé að rannsaka makrílstofninn við Íslandsstrendur og ekki sé hægt að meta framhald veiðanna fyrir en niðurstaða þeirra rannsókna liggi fyrir.

Steingrímur segir að Íslendingar vilji fá sanngjarnan hluta af veiðiheimildum á makríl og ekki verði samið um annað.

Makríll.
Makríll.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert