Jökull Bergmann óttast ekki Mont Blanc

Mont Blanc er einn vinsælasti tindur heims.
Mont Blanc er einn vinsælasti tindur heims. AFP

Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður segist ekki kvíða því að klífa Mont Blanc í ágúst þó að þar hafi orðið nokkur mannskæð slys á undanförnum dögum. „Ég hef oft horft upp á fólk deyja þarna í kringum mig, fólk sem hefur verið að gera vitlausa hluti. Ég verð að treysta því að ég hafi dómgreind til þess að taka réttar ákvarðanir þegar á hólminn er komið. Það er minnsta mál í heimi að snúa við og gera eitthvað annað ef aðstæður eru slæmar. Þarna er nóg af fjöllum.“

Jökull er eigandi leiðsögufyrirtækisins Bergmanna sem er eina íslenska fyrirtækið sem hefur leiðsöguréttindi á Mont Blanc. Hann starfar sem leiðsögumaður í Ölpunum á sumrin og segist ekki hafa tölu á því hversu oft hann hefur klifið Mont Blanc. Hann  verður næst á fjallinu með ferðamenn nú í ágúst.

Í byrjun júlí hröpuðu fimm Þjóðverjar til bana er þeir voru á leið sinni niður Lagginhorn í svissnesku Ölpunum en Mont Blanc er í þeim fjallgarði. Í síðustu viku féll snjóflóð á Chamonix-svæðinu í Frakklandi og létu níu manns lífið, en fólkið var allt á leiðinni á tind Mont Blanc. Talið er að fjallgöngumaður hafi óvart komið flóðinu af stað. Fyrir nokkrum dögum frusu svo tveir fjallgöngumenn á Mont Blanc í hel en þeir höfðu lent í miklum snjóbyl.

Í kjölfarið hafa vaknað spurningar um öryggi á fjallinu og því m.a. verið krafist að umferð þar um verði stjórnað með einhverjum hætti. Sífellt fjölgar þeim sem vilja klífa Mont Blanc og tugþúsundir manna leggja leið sína á svæðið á hverju ári.

„Það má segja að á algengustu leiðunum sé mjög margt fólk, eins og á Mont Blanc. Þangað er gríðarleg ásókn og fólk á ferð sem að mínu viti á ekki mikið erindi þangað, oft illa búið, með litla fjallareynslu og á eigin vegum,“ segir Jökull.

„ Það er ekkert óskaplega erfitt að klífa Mont Blanc,“ segir hinn reyndi fjallaleiðsögumaður. „Það er til dæmis léttara að ganga á Mont Blanc heldur en á Hvannadalshnúk. En þetta er engu að síður í mikilli hæð, fólk gefur sér ekki nægan tíma til að aðlagast hæðinni og þá getur þetta verið mjög erfið fjallganga.“

Gríðarleg pressa að halda á fjallið

Jökull segir vandamálið það að flestir komi á svæðið á sama tíma. „Og ef það eru leiðinleg veður og fjallið er lokað dögum saman, þá safnast upp mikill fjöldi fólks sem vill svo drífa sig af stað þegar veðrið gengur niður. Þá er pressan svo mikil á leiðsögumennina að farið er af stað alltof snemma. Það er að öllum líkindum það sem gerðist [er snjóflóðið féll í síðustu viku]. Flóðið féll í brekku sem er klassískur staður sem maður reynir að forðast í ákveðinn tíma þegar búið er að snjóa mikið svo að snjórinn fái tíma til að setjast almennilega.“

Jökull þekkir nokkra leiðsögumenn sem voru á fjallinu daginn sem snjóflóðið féll. „Þeir segja allir það sama, að það hafi verið gríðarleg pressa að halda á fjallið.“

Spurður út í hugmyndir um að takmarka eða stýra umferð á hæstu tinda Alpanna með einhverjum hætti segist Jökull almennt séð ekki hrifinn af slíkri stýringu. „En í þessu tilviki finnst mér það þó koma til greina. Þetta er farið að vera til vandræða. En á sama tíma er þetta bara fjall sem fólki er frjálst að klífa að vild. Frökkunum er mjög umhugað um rétt fólks til að fara á fjöll og drepast. Í Bandaríkjunum er allt annað uppi á teningnum, þar vilja menn hefta allt.“

Umferðin á Mont Blanc er á sumrin það mikil að oft myndast biðraðir við ákveðnar leiðir. „Vandinn við Mont Blanc er að á öllum helstu leiðum á tindinn eru hættulegir kaflar og flöskuhálsar geta myndast,“ segir Jökull.

Fólk deyr á fjallinu á hverjum degi

Jökull segir að þó að þessi hræðilegu slys hafi komist í hámæli megi ekki gleyma því að yfir hásumarið deyi fólk daglega á svæðinu. „Tugþúsundir manna eru þarna á hverju sumri að ganga og það er skiljanlegt að það verði slys.“

Í langflestum tilvikum er um að ræða fólk sem er á eigin vegum, þ.e. ekki með leiðsögumenn. Það hrapar, örmagnast eða frýs í hel. „Ef fólk er ekki með fjallaleiðsögumann með sérþekkingu á svæðinu er aldrei að vita hvað gerist,“ segir Jökull.

Hann bjó lengi í franska bænum Chamonix, sem er miðstöð fjallamennskunnar við Mont Blanc. „Ég bjó við hliðina á spítalanum sem hefur þrjár þyrlur til taks til að sækja fólk á fjallið. Þær eru í stöðugri notkun allt sumarið og lenda á nokkurra mínútna fresti við spítalann.“

Frá Ölpunum. Mannvirki á Dôme du Goûter við Mont Blanc-fjallgarðinn …
Frá Ölpunum. Mannvirki á Dôme du Goûter við Mont Blanc-fjallgarðinn en tveir fjallamenn frusu þar í hel fyrir nokkrum dögum. AFP
Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður og eigandi Bergmanna.
Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður og eigandi Bergmanna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert