„Eins og geysistórt þvottabretti“

Rúta Gísla Rafns Jónssonar í Öskjuopi í fyrstu ferð.
Rúta Gísla Rafns Jónssonar í Öskjuopi í fyrstu ferð. Birkir Fanndal

„Þetta er eins og geysistórt þvottabretti, vegurinn hefur oft verið slæmur, en ég hef ekki lent í þessu áður,“ segir Gísli Rafn Jónsson, bifreiðastjóri, en tvær rúður brotnuðu í rútu í eigu Askja Tour, fyrirtækis Gísla sem var á ferð á veginum á Öskjuleið í dag. Hann segir þversögn í því að spara í viðhaldi vega og á sama tíma verja fé til þess að laða erlenda ferðamenn til landsins.

Rútan var full af ferðamönnum, en engan sakaði. Fólki var þó verulega brugðið, að sögn Gísla.

„Á köflum þýðir ekkert fyrir leiðsögumanninn að tala, það heyrist ekkert fyrir hávaða í húsinu á bílnum vegna hristings. Það er eins og allt sé að hrynja. Nú er langt liðið á júlí og enn er ekki búið að hefla vorheflun upp að Öskju. Það er ekki búið að hefla úrrennsli, það var lagfært með gröfu í vor. Venjulega hefur þetta verið þannig að Vegagerðin fer með hefil í fyrstu ferð og lagar öll úrrennsli.“

Ekki við Vegagerðina að sakast

Gísli segist hafa ekið þessa leið frá árinu 1984. Oft hafi ástand veganna verið slæmt, en aldrei eins og nú. „Ég er ekki að tala um að það eigi að eyða einhverjum stórum peningi í vegina, ég er bara að tala um að þeir hefli veginn á þriggja vikna fresti yfir sumarið. En þeir segja að það þýði ekki að hefla þegar það er svona þurrt. Það er alveg rétt. En á meðan það er ekki annað efni í veginum en er í dag eigum við engra annarra kosta völ en að hefla og þá verðum við bara að hefla oftar.“

Gísli segir að ekki sé við Vegagerðina að sakast, henni séu úthlutaðir takmarkaðir fjármunir. Hann segir það þversögn að spara á þennan hátt á sama tíma og verið sé að leggja fé í að fá erlenda ferðamenn til að heimsækja Ísland, en síðan sé þeim boðið upp á aðstæður sem þessar.

Vill úrbætur

„Það er ekki forsvaranlegt að fólki sé boðið upp á að fara þessa fjallvegi. Það er búið að verja stórfé í að auglýsa Ísland og fá fólk til landsins. Á sama tíma er Vegagerðin í fjársvelti, þannig að hún  getur ekki haldið þessum vegum við. Þó að fyrirtækið mitt sé lítið skapar það samt sem áður gjaldeyri. Ég vil sjá úrbætur, ekki fyrir mig, heldur þá sem koma hingað til landsins. Ekki viljum við að fólk fari óánægt heim til sín vegna þessa.“

Gísli Rafn Jónsson rekur fyrirtækið Askja Tours sem ekur daglega …
Gísli Rafn Jónsson rekur fyrirtækið Askja Tours sem ekur daglega með ferðamenn að Öskju. Hann segir ástand Öskjuleiðar óviðunandi. Rax / Ragnar Axelsson
Gísli Rafn Jónsson, bifreiðastjóri á Akureyri, horfir yfir glerbrotin í …
Gísli Rafn Jónsson, bifreiðastjóri á Akureyri, horfir yfir glerbrotin í bíl sínum. Birkir Fanndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert