Hélt veislu eftir hjartaaðgerð og safnaði fyrir hjartveik börn

Finnbogi Örn og Bríet Björg með afrakstur söfnunarinnar á milli …
Finnbogi Örn og Bríet Björg með afrakstur söfnunarinnar á milli sín. Picasa

Systkinunum Bríeti Björgu, 8 ára, og Finnboga Erni, 10 ára, datt í hug að efna til heljarinnar veislu til þess að þakka fyrir sig. Finnbogi er með hjartagalla og Downs-heilkenni og fór hann nýlega í hjartaaðgerð í Svíþjóð. Í veislunni safnaði Finnbogi framlögum fyrir hjartveik börn.

„Finnboga Erni og Bríeti Björgu systur hans datt í hug að bjóða fólki í kaffi. Þetta átti bara að vera smátt en svo fljótlega stækkaði partíið. Finnbogi fór í hjartaaðgerð í apríl og á þeim tíma bárust okkur fjölmargar fallegar kveðjur. Okkur fannst þetta góð leið til þess að hitta fólk og þakka fyrir okkur. En þetta var algjörlega hans hugmynd,“ segir Auður Finnbogadóttir, móðir Finnboga Arnar og Bríetar Bjargar Rúnarsdóttur sem héldu kaffiboð fyrir vini og ættingja til að þakka fyrir stuðninginn. 

Frjáls framlög í stað „muffins“

Finnbogi er með Downs-heilkenni og er hjartveikur. Hann fór í hjartaaðgerð til Lundar í Svíþjóð fyrir um tveimur mánuðum og tókst hún vel. Finnboga langaði að þakka fyrir sig. Þau systir hans tóku sig saman og buðu til heljarinnar veislu þar sem 80 manns komu saman. Í veislunni söfnuðu þau Finnbogi og Bríet frjálsum framlögum í skiptum fyrir „muffins“, sem eru í miklu uppáhaldi hjá Finnboga. Í veislunni bauð Finnbogi fólk velkomið, gaf því kaffi og tók við klinki í baukinn sem honum fannst ekki leiðinlegt. Hvorki meira né minna en 44.857 krónur söfnuðust. Afraksturinn fer til hjartveikra barna.

Amma bakaði og afi sló garðinn

Amma hans og afi létu þennan draum verða að veruleika og spurðist boðið hratt út. Amman sat í garðinum við vöfflujárnið ásamt því að hafa staðið sveitt við að baka muffins allan daginn áður. Afinn flaggaði í tilefni dagsins og gerði garðinn fínan.
Aðspurður segir Finnbogi að „meira en 40 þúsund“ hafi safnast og bætti við: „Ég ætla að gefa hjartveikum börnum peninginn.“ Veislan fór fram í Hnífsdal þar sem fjölskyldan bjó þar til fyrir ári, en hún býr nú í Reykjavík.

„Ég er bara hér“

Finnboga fannst afar gaman að fá allt þetta fólk í veisluna sína og sagði frá því að „amma Hanna“ hefði bakað kökurnar í veislunni. Í upphafi samtals spurði blaðamaður hann hvar hann væri núna og það stóð ekki á svarinu: „Ég er bara hér.“ 

Úr veislunni.
Úr veislunni. Picasa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert