Fréttaskýring: Makríllinn kominn norður fyrir land

mbl.is/Ómar

Breytt makrílgengd hefur leitt til þess að hagsmunir Íslendinga vegna hans hafa vaxið verulega. Árið 2004 var makrílafli íslenskra skipa 4.000 tonn en árið 2011 var hann orðinn 159 þúsund tonn. Tekjur Íslendinga af makrílveiðum með lýsi og mjöli námu 26 milljörðum króna árið 2011.

Makríll finnst víða

Hafrannsóknastofnun er nú í rannsóknarleiðangri til þess að kortleggja það hvar makríllinn liggur við landið. Fram til þessa hefur mest veiðst af honum sunnan við landið. Hrafnkell Eiríksson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir margt benda til þess að hann megi finna víðar við landið. Flestar frásagnir af makríl hafa borist af honum fyrir vestan land. Jafnframt hafa borist sögur af honum á Norðurlandi, við Siglufjörð og Vatnsnes. „Það er ljóst af þeim sögum sem við höfum fengið að makrílgöngur eru meiri vestur um land eins og við Hólmavík og Steingrímsfjörð. En við höfum einnig fengið fjölda tilkynninga af honum í Húnaflóa, bæði við Vatnsnes og Siglunes út af Siglufirði,“ segir Hrafnkell. „Eins höfum við fengið sögur af honum austar en áður, frá Eskifirði, Seyðisfirði og Borgarfirði eystri svo dæmi séu nefnd. Aftur á móti hefur minna heyrst af honum á Suðurlandi þar sem hann hefur veiðst hvað mest undanfarin ár,“ segir Hrafnkell.

Hlýrri sjór leiðir markríl til landsins

Makríllinn finnst í Miðjarðarhafi, Svartahafi og í Norður-Atlantshafi frá Madeira og Azor-eyjum norður að Noregsströndum. Undanfarin ár hefur hann í vaxandi mæli gengið inn í íslensku efnahagslögsöguna samfara auknum hlýindum í hafinu umhverfis landið. Sumarið 2010 var talið að meira en milljón tonn hefðu gengið inn í lögsöguna.

Áður en þessar miklu göngur hófust á Íslandsmið var makríllinn aðeins flækingur hér á landi. Fyrst varð vart við hann í torfum árið 1904 fyrir Norðurlandi og svo reglulega á fyrri hluta síðustu aldar, meðal annars við Keflavík 1934 og í Skerjafirði 1938. Einnig var allmikið um hann undan Suðvesturlandi sumarið 1987 og við Suðurland 1991.

Fram til ársins 2006 var markíll einkum veiddur í Noregi og af þjóðum Evrópusambandsins.

Alþjóðahafrannsóknaráðið mælti með um 600 þúsund tonna markílkvóta fyrir árið 2011 svo tryggja mætti sjálfbærni stofnsins. Íslendingar settu sér 150 þúsund tonna kvóta en Færeyingar 155 þúsund tonna kvóta. Þjóðir Evrópusambandsins veiddu svo um 600 þúsund tonn. Heildarafli var því rúm 900 þúsund tonn sem er töluvert umfram ráðleggingar. Heildarafli Íslendinga af veiðinni er 16-17%. Gert er ráð fyrir veiðum á um 145 þúsund tonnum af makríl árið 2012.

Hnignun sandsílisstofns tengd makríl

Makríll er í um 4-5 mánuði á Íslandsmiðum ár hvert og nærist meðal annars á sandsíli. Í fyrirlestri Roberts Fumes, prófessors við Háskólann í Glasgow, í Háskóla Íslands 16. desember á síðasta ári kom fram í máli hans að líklegasta skýringin á hnignun sandsílisstofns hér við land mætti að hluta til skýra með komu makríls inn í íslenska lögsögu.

Verða allt að 25 ára gamlir

Makríllinn er uppsjávarfiskur líkt og síld og loðna. Á veturna heldur hann sig djúpt á hafi úti en þegar vora tekur safnast hann saman í miklar torfur og færir sig nær landi til hrygningar og fæðuöflunar. Oft kraumar í sjónum þegar makríll er við fæðuöflun nærri yfirborði sjávar.

Hann er langlífur og hefur hámarksaldur makríls greinst 25 ár og þekkt er að fiskar geta orðið meira en 66 cm langir

Makríllinn ber þess merki að vera mikill sundfiskur, hann er rennilegur í vexti, gildastur um miðjuna og mjókkar til sporðs og kjafts.

Makríll er mjög hraðskreiður en hann er án sundmaga og því næst ekki endurkast af honum með bergmálsmælingum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert