Aukin virkni mælist enn við eldstöðina Kötlu

„Það er aukin jarðskjálftavirkni í Kötlu og það eru búnir að vera miklu fleiri smáskjálftar inni í Kötluöskjunni frá því í júlí í fyrra en verið hefur undanfarin ár,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og bendir á að um sé að ræða grunna jarðskjálfta sem að líkindum tengjast jarðhitavirkni á svæðinu en hún hefur aukist að undanförnu.

Hefur þetta ástand verið ríkjandi við eldstöðina í rúmt ár og bendir Magnús Tumi m.a. á að hlaupið í Múlakvísl á síðasta ári tengist þessari auknu virkni.

„Þannig að Katla er órólegri núna en hún er vanalega,“ segir Magnús Tumi en t.a.m. má nefna að í gær og fyrradag mældust jarðskjálftar upp á rúmlega tvö stig í Mýrdalsjökli.

Höfum beðið eftir gosi frá árinu 1955

Seinast gaus Katla öflugu gosi fyrir 94 árum, eða árið 1918, en ómögulegt er að segja fyrir um hvenær næsta eldgos mun eiga sér stað í eldstöðinni. Magnús Tumi bendir á að árið 1955 hafi margir átt von á gosi en nú 57 árum síðar er enn beðið eftir Kötlugosi.

„En auðvitað endar þetta með því að það kemur Kötlugos,“ segir Magnús Tumi og bendir á að á árunum 1955, 1967, 1977, 1999 og á árunum 2001-2005 hafi verið mikill órói á svæðinu með aukinni virkni jarðskjálfta og -hita.

„Það er oft heilmikið líf og jarðhiti inni í virkum öskjum, eins og Katla er, en erfitt að segja til um hvað sé undanfari eldgosa og hvað ekki,“ segir Magnús Tumi og bætir við að þó sé ljóst að skjálftana undir öskjunni megi rekja til jarðhita en ekki til bráðnunar jökuls. „Bráðnun jökuls ein og sér býr ekki til jarðskjálfta heldur er þetta tengt jarðhitasvæðum og eldfjallinu.“

Þrátt fyrir að engar augljósar vísbendingar séu uppi þess efnis að eldstöðin í Mýrdalsjökli muni koma til með að gjósa á næstunni segir Magnús Tumi vissulega meiri líkur en minni vera á gosi á næstu misserum. Að sama skapi er ómögulegt að segja til um hversu öflugt næsta eldgos í Kötluöskju verði. „Hversu stórt verður næsta gos? – Það er ekkert í gossögunni sem segir okkur hvort næsta gos verður stórt. Það virðast ekki vera tengsl þar á milli að goshlé sé langt og svo komi stórt gos.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert